Viðskipti innlent

Norðmenn leita olíu - Íslendingar eiga 25% rétt

Norsk stjórnvöld hafa ákveðið að verja tvöhundruð milljónum króna til að undirbúa olíuleit við Jan Mayen. Málið gæti haft mikla þýðingu hérlendis í framtíðinni því Íslendingar eiga 25 prósenta nýtingarrétt á olíu Noregsmegin miðlínunnar.

Olíumálaráðherrann Terje Riis Johansen markaði stefnu norskra stjórnvalda með táknrænni heimsókn til Jan Mayen í fyrra. Hann lætur ekki sitja við orðin tóm því nú hefur hann hrint af stað undirbúningsferli að því að opna hafsvæðið við eyjuna til olíuleitar með því að verja tíu milljónum norskra króna í umhverfismat og kortlagningu jarðlaga.

Olíumálaráðherrann Terje Riis Johansen.
Fyrir íslenska hagsmuni gæti þetta haft mikla þýðingu því samkvæmt Jan Mayen samkomulagi þjóðanna frá árinu 1981 deila þjóðirnar með sér nýtingu á Jan Mayen hryggnum. Þannig eiga Norðmenn 25% nýtingarétt á hluta Drekasvæðisins Íslandsmegin en á móti eiga Íslendingar samsvarandi rétt Noregsmegin. Þó er sá munur á að réttur Íslands nær yfir mun stærra svæði í lögsögu Noregs, sem er einmitt það svæði sem Norðmenn undirbúa nú fyrir olíuleit.

Norskir sérfræðingar hafa áætlað að Jan Mayen-hryggurinn geymi álíka verðmæti í olíu og gasi og Noregshaf, eitt verðmætasta vinnslusvæði Norðmanna.

Íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt að næsta útboð á olíuleit Íslandsmegin á Drekasvæðinu verði á síðari hluta næsta árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×