Viðskipti innlent

Askar gæti valdið Sjóvá vanda

Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir fundi í viðskiptanefnd Alþingis vegna mögulegra áhrifa slitameðferðar Aska Capital á stöðu Sjóvár-Almennra.

Ríkissjóður bjargaði Sjóvá frá gjaldþroti í fyrra þegar keyptur var 73 prósenta hlutur í fyrirtækinu fyrir 11,6 milljarða króna. Af þeim voru 6,2 milljarðar í formi skuldabréfa útgefnum af Askar Capital. „Þessir pappírar voru meginuppistaðan í því eigin fé sem ríkið kom með inn í félagið og því hlýtur eiginfjárhlutfallið hjá því að vera komið aftur undir það sem það ætti að vera," sagði Eygló. „Það sem er uppi á borðinu núna er hvort Sjóvá er gjaldþrota eða ekki."

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir rétt að einhver óvissa ríki um pappíra Askar og Avant. „Við erum að skoða þessa hluti en það er dálítið erfitt fyrir mig að vera að tjá mig um áhrif á aðra eftirlitsskylda aðila á þessari stundu," sagði Gunnar.

Fjármálaráðuneytið hefur umsjón með eignarhlut ríkisins í Sjóvá en ekki náðist í Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra vegna málsins í gærkvöldi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×