Viðskipti innlent

Spáir meiri samdrætti þjóðarútgjalda en aðrir

Hagstofan gerir ráð fyrir að þjóðarútgjöld muni dragast saman um 3,3% á árinu sem er nokkuð meira en sá samdráttur sem bæði Seðlabankinn (SÍ) sem og ASÍ reikna með. Þannig hljóðar spá SÍ upp á 1,9% samdrátt í þjóðarútgjöldum en ASÍ upp á 1,5% samdrátt.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þessi munur skýrist af því að Hagstofan reiknar með að einkaneyslan komi til með að dragast saman um 0,1% á árinu á meðan SÍ reiknar með vexti hennar upp á 1,1% og ASÍ með vexti upp á 0,9%.

Jafnframt gerir Hagstofan ráð fyrir að samneyslan muni dragast saman um 3,8% milli ára á meðan SÍ reiknar með 3,0% samdrætti og ASÍ með 3,6% samdrætti. Að lokum reiknar Hagstofan með að fjármunamyndun muni dragast saman um 14,5% í ár en SÍ reiknar með 10,2% samdrætti og ASÍ með 11,9%.

Af ofangreindri umfjöllun er því ljóst að spá Hagstofunnar er nokkuð svartsýnni en aðrar nýlegar spár innlendra aðila hvað þjóðarútgjöld varða en á móti er hún mun bjartsýnni hvað framlag utanríkisviðskipta varðar á árinu.

Þannig gerir Hagstofan ráð fyrir að útflutningur vöru og þjónustu muni vaxa um 0,7% á árinu á meðan SÍ reiknar með 0,4% vexti og ASÍ með samdrætti upp á 3,1%. Auk þess reiknar Hagstofan með að innflutningur muni aukast um 0,6% í ár sem er nokkuð minna en sá 1% vöxtur sem ASÍ reiknar með og sá 2,5% vöxtur sem SÍ reiknar með.

Líkt og aðrir aðilar sem nýlega hafa reitt fram þjóðhagsspár reiknar Hagstofan með því að atvinnuleysi verði áfram mikið og mun meira en Íslendingar eru vanir. Þannig spáir Hagstofan því að atvinnuleysi verði 9,1% í ár, 8,3% á næsta ári og að árið 2012 verði það komið niður í 6,3%. Er þetta nokkuð jákvæðari tónn en er í spám SÍ og ASÍ, en t.a.m. reiknar hagdeild ASÍ með að atvinnuleysi í ár verði 9,6% og fari svo niður í 9,2% á næsta ári og 8,0% árið 2012.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×