Viðskipti innlent

Afkastageta gagnavers margfölduð

Afkastageta gagnavers Thor Data Center í Hafnarfirði, sem tekið var í noktun síðastliðið vor, hefur verið margfölduð en nýrri gámaeiningu hefur verið komið fyrir í húsnæði versins við Steinhellu í Hafnarfirði. Gámaeiningin inniheldur meðal annars nýjan kælibúnað sem er „afrakstur margra mánaða hönnunarsamstarfs íslenskra sérfræðinga Thors og spænskra framleiðenda gámaeininganna," eins og segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þá segir að vinna sé jafnframt hafin við uppsetningu nýs hýsingarbúnaðar í sérsmíðuðum vélarsal sem tengjast mun nýja gámnum. „Að þessum áfanga loknum margfaldast hýsingargeta Thors og verður gagnaverið undir það búið að sinna hýsingarþörfum mjög stórra fyrirtækja. Fyrsti erlendi viðskiptavinur gagnaversins, norska hugbúnaðarfyrirtækið Opera Software, flutti umtalsverðan hluta af gagnavinnslu sinni hingað til lands í maí síðastliðnum."

„Thor Data Center er fyrsta og, hingað til, eina gagnaverið á Íslandi sem hannað er frá grunni sem Tier 3 gagnaver. Tier 3 er alþjóðleg flokkun yfir gagnaver sem tryggt geta a.m.k. 99.982% uppitíma, eru með fleiri en eina orkuuppsprettu og aðskilda kælidreifingu, sem gerir tæknimönnum kleift að sinna viðhaldi án þess að rjúfa þurfi tengingu búnaðarins við vefinn á meðan," segir ennfremur en fyrirtækið hefur tryggt sér kaup á 3,2 megawatta raforku frá HS Orku á Suðurnesjum og ákvæði eru í samningnum um allt að 19,2 megawött ef umsvifin aukast.

„Thor Data Center býður viðskiptavinum sínum upp á þjónustu við gagnavistun, afritun og hýsingu. Á næstunni mun fyrirtækið einnig bjóða þjónustu sína til smærri aðila í gegnum netið. Gagnaver Thor í Hafnarfirði hefur hlotið alþjóðlega vottun skv. ISO 27001 öryggisstaðlinum," segir að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×