Viðskipti innlent

Rösklega 740 þúsund litrar af áfengi seldust fyrir helgi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Biðröð fyrir framan verslun ÁTVR.
Biðröð fyrir framan verslun ÁTVR.
Sala áfengis var svipuð fyrir verslunarmannahelgina núna og fyrir ári síðan. Samtals seldust 743 þúsund lítrar af áfengi í vikunni fyrir verslunarmannahelgi nú í ár en í sömu viku í fyrra seldust 750 þúsund lítrar. Samdrátturinn í lítrum talið nemur því 0,9%. Um 0,5% færri viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar þessa viku en sömu viku í fyrra, 124 þúsund á móti 125 þúsund.

Ef einstakir dagar í vikunni eru bornir saman má sjá að fleiri viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar þriðjudag, miðvikudag og föstudag en í fyrra. Einnig má sjá að 1,2% fleiri viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar á föstudeginum í ár en í fyrra. Föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgi er venjulega einn annasamasti dagur ársins í Vínbúðunum og síðastliðinn föstudagur var þar engin undantekning. Þá komu 43.800 viðskiptavinir í Vínbúðirnar en 43.300 heimsóttu Vínbúðirnar sama dag fyrir ári.

Í Vínbúðinni í Vestmannaeyjum komu um 2.688 viðskiptavinir föstudag og laugardag um verslunarmannahelgi í fyrra, en í ár heimsóttu um 2.570 viðskiptavinir Vínbúðina. Fækkunin er því 4,4% á milli ára. Á Akureyri komu um 4.426 viðskiptavinir sömu daga fyrir ári en 4.848 í ár og er aukningin milli ára því um 9,5%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×