Viðskipti innlent

Vilja úrskurð um lögmæti auglýsinga ráðherra

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa farið fram á það við utanríkisráðuneytið að það kanni hvort auglýsingar Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um tollkvóta standist lög. Ráðherrann breytti fyrirkomulagi þessara auglýsinga er hann tók við embætti og nú er svo komið að fáir vilja bjóða í þá tollkvóta sem eru í boði.

Fjallað er um málið á heimasíðu SVÞ. Þar segir að nýverið auglýsti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eftir tilboðum í tollkvóta fyrir ýmsar landbúnaðarafurðir, en ráðuneytið er skuldbundið til að auglýsa með þessum hætti eftir tilboðum samkvæmt skuldbindingum okkar við Alþjóðaviðskiptamálastofnunina (WTO).

Allt þar til á síðasta ári voru auglýsingar þessar með þeim hætti að um var að ræða toll pr. kg. Reynslan sýndi að margir gerðu tilboð í þessa kvóta enda gat verið eftir nokkru að slægjast meðan auglýst var með þessu hætti.

Bæði á síðasta ári og aftur á þessu ári eru auglýsingar ráðuneytisins með þeim hætti, að kominn er verðtollur sem er það hár að telja má í meira lagi vafasamt að nokkur fyrirtæki sjái sér hag í því að bjóða í tollkvótana.

Ekki verður annað ráðið af þessari breytingu en það að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið ætli sér að koma í veg fyrir að íslenskir neytendur fái notið góðs af þeim afurðum sem fluttir yrðu inn á grundvelli skuldbindinga okkar við WTO. Slíkt er augljóslega fullkomlega óásættanlega hvernig sem á málið er litið.

SVÞ hefur sent erindi til utanríkisráðuneytisins vegna þessa og óskað eftir því að ráðuneytið kanni hvort þessi aðferð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins standist skuldbindingar okkar gagnvart WTO. Svars utanríkisráðuneytisins er að vænta á næstu dögum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×