Erlent

Óttast nýtt borgarastríð í Líbanon

óli Tynes skrifar
Beirut í borgarastríðinu.
Beirut í borgarastríðinu.

Á næstu dögum verður tilkynnt um hverjir verða ákærðir vegna morðsins á Rafik Hariri forsætisráðherra.

Þá gæti allt farið í bál og brand.

Það er til marks um hveru óttaslegnir menn eru að leiðtogar Sýrlands og Saudi-Arabíu komu saman í flugvél til Beirut í dag, en þjóðirnar hafa lengi bitist um áhrif í Líbanon.

Forseti og forsætisráðherra Líbanons tóku á móti þeim Abdullah konungi Saudi-Arabíu og Bashar Assad forseta Sýrlands.

Það er sérstök rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna með aðsetur í Haag í Hollandi sem rannsakar morðið á Rafik Hariri.

Honum var grandað með gríðarlegri bílsprengju árið 2005.

Hariri var súnní múslimi og í nánum tengslum við Saudi-Arabíu. Sýrlendingar sem nánast stjórnuðu Líbanon árum saman eru flestir shía múslimar.

Það eru líka Hizbolla samtökin sem eru í nánum tengslum við Sýrlendinga.

Rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur enn ekki upplýst hverjir verða ákærðir fyrir morðið á Hariri, en leiðtogi Hizbolla sagði í síðustu viku að liðsmenn samtakanna væru meðal þeirra.

Hann lýsti því jafnframt yfir að Hizbolla kynni að verja hendur sínar. Það er því full ástæða til þess að óttast nýtt borgarastríð í Líbanon.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×