Innlent

Háskólanemar geta unnið 30 þúsund evrur

Íslenskir háskólanemar fá tækifæri til þess að móta framtíð flugs og vinna 30.000 evrur í alþjóðlegri samkeppni sem Airbus blés til í dag á alþjóðlegu flugsýningunni í Farnborough í Bretlandi.

Samkeppnin ber nafnið Fly Your Ideas eða Komdu hugmyndum þínum á flug og með henni vill Airbus hvetja háskólanema um allan heim til þess að koma með nýjar hugmyndir um grænna flug. Fly Your Ideas er haldin á tveggja ára fresti og fór fram í fyrsta sinn árið 2009, segir í tilkynningu.

Í samkeppninni eru þrjár umferðir og hún endar með úrslitum sem fara fram á Le Bourget flugsýningunni í París næsta sumar. Í dómnefnd er fagfólk frá Airbus auk sérfræðinga úr flugiðnaðinum. Sigurvegarar hljóta 30.000 evrur í verðlaun og liðið sem lendir í öðru sæti fær 15.000 evrur. Í síðustu samkeppni komst lið frá Háskóla Íslands áfram í aðra umferð samkeppninnar.

Við setningu samkeppninnar sagði Charles Champion, aðstoðarforstjóri verkfræðisviðs Airbus og verndari Fly Your Ideas: „Fly Your Ideas samkeppnin er einstakt tækifæri fyrir nema til þess að taka þátt í sýn Airbus um vistvirkan flugiðnað í framtíðinni. Samkeppninni er ætlað að örva hugmyndir sem miða að tengdari og sjálfbærari heimi. Hún gerir Airbus kleift að tengjast nemum og auðveldar rannsóknarteymum að sjá tækifæri sem beinast að því að sameina aukna umhverfisvernd og meiri kröfur um flugsamgöngur.“

Nemendur á öllum aldri, af mismunandi þjóðerni, kyni og úr öllum fögum – frá verkfræði til markaðsmála; viðskiptum til raunvísinda; heimspeki til hönnunar – eru hvattir til að taka þátt. Tillögur mega vera á öllum sviðum hins „umhverfislega lífsferils“ – leið sem Airbus notar til þess að draga úr umhverfisáhrifum flugvélar og framleiðsluferils hennar. Lífsferillinn er í fimm stigum: Hönnun, aðfangastjórn, framleiðsla, notkun flugvélar og förgun.

Fly Your Ideas samkeppnin var haldin í fyrsta skipti árið 2009 og var hún mjög vel heppnuð. 2.350 nemar frá 82 löndum tóku þátt í keppninni sem endaði með því að fjölþjóðlega liðið COz frá háskólanum í Queensland í Ástralíu stóð uppi sem sigurvegari. Tillaga þeirra var að nota náttúrulegt trefjaefni, sem unnið er úr plöntum, í farþegarými flugvéla.

„Að vinna Fly Your Ideas samkeppnina árið 2009 var frábær reynsla. En tækifærið að vinna með sérfræðingum Airbus, fá innsýn inn í iðnaðinn og öðlast nýja þekkingu, var alveg jafn dýrmætt," segir hinn 27 ára gamli Benjamin Lindenberger, sem var í sigurliðinu.

Til þess að taka þátt í Fly Your Ideas samkeppninni þurfa nemar að skrá sig sem þriggja til fimm manna lið á vefsíðu keppninnar www.airbus-fyi.com fyrir 30. nóvember 2010.

Verkefnatillögur þarf að senda inn fyrir 10. desember 2010. Þeir sem valdir eru áfram í aðra umferð munu þróa hugmyndir sínar í nákvæmari hugmynd með aðstoð frá starfsfólki Airbus. Fimm lið komast í úrslit og fá VIP ferð á Le Bourget flughátíðina í París í júní 2011 og kynna þar hugmyndir sínar fyrir sjálfstæðri dómnefnd sem velur sigurvegarann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×