Innlent

Dómurinn mun skapa vandræði á fjármálamarkaði

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Þorri allra gengistryggðra bílalána og hluti húsnæðislána landsmanna var að líkindum dæmdur ólöglegur í tímamótadómum sem féllu í Hæstarétti nú síðdegis. Langmesta réttarbót sem íslenskur almenningur hefur fengið frá hruni og þjóðin hefur nú ástæðu til að fagna á þjóðhátíðinni á morgun, segja verjendur.

„Mín fyrstu viðbrögð er mikil gleði," segir Björn Þorri Viktorsson, lögmaður Óskars Sindra Atlasonar, sem þarf ekki að greiða gengistryggt krónulán til SP-Fjármögnunar.

Björn Þorri segir niðurstöðuna í dag mun stærri og mikilvægari en flestir átta sig á.

„Hér er á ferðinni einhver stærsta efnahagsaðgerð frá hruni," útskýrir Björn um mikilvæga þýðingu niðurstöðunnar en alls eru 44 þúsund heimili með gengistryggð bílalán.

En ekki eru allir á eitt sáttir. Lögmaður SP-Fjármögnunar og Lýsingar, Sigurmar K. Albertsson, segist búast við því að niðurstaða Hæstaréttar eigi eftir að skapa mikla erfiðleika fyrir fjármálakerfið.

„Þetta snýst um nokkur hundruð milljarða," segir Sigurmar sem þorir ekki að spá fyrir um framhaldið og afleiðingarnar á fjármálaheiminn. Í raun prísar Sigurmar sig sælan að vera ekki í þeim geiranum þegar hann er spurður hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir efnahagskerfið.

„Guði sé lof að ég stjórna því ekki. Ég býst við að það verði einhver kvöð á þeim bæjum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×