Viðskipti innlent

Heildarskuldir ríkissjóðs eru 99% af landsframleiðslu

Gríðarleg aukning hefur orðið á skuldum ríkissjóðs undanfarið eins og kunnugt er. Í lok fyrsta ársfjórðungs námu þær 1.536 milljörðum kr. sem er næstum þriðjungi hærri fjárhæð en á sama tíma árið 2008. Nema heildarskuldir ríkissjóðs nú um 99% af landsframleiðslu ársins en árið 2008 voru þær um 39% af landsframleiðslu.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að peningalegar eignir ríkissjóðs hafa aukist mun minna og hefur hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, þar af leiðandi versnað verulega á undangreindu tímabili.

Þannig var hrein peningaleg eign ríkissjóðs neikvæð um 517 milljarða kr. í lok fyrsta ársfjórðungs 2010 en hafði verið jákvæð um 45 milljarða kr. á sama tíma 2008 og hefur hún því versnað um 562 milljarða kr. á þessu tveggja ára tímabili.

Sem hlutfall af landsframleiðslu var hrein peningaleg eign ríkissjóðs neikvæð um rúm 33% í lok fyrsta ársfjórðungs í ár en hafði verið jákvæð um rúm 3% árið 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×