Viðskipti innlent

Flestir telja aðstæður í atvinnulífi slæmar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það verður áfram kalt á atvinnumarkaði. Mynd/ GVA.
Það verður áfram kalt á atvinnumarkaði. Mynd/ GVA.
Stærstur hluti stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins telja aðstæður slæmar í atvinnulífinu. Þetta kemur fram í reglubundinni könnun Capacent meðal fyrirtækjanna.

Samkvæmt könnuninni, sem gerð var núna í desember, telja 84% stjórnenda aðstæður slæmar, 15% að þær séu hvorki góðar né slæmar en nánast enginn að þær séu góðar. Þetta er svipuð niðurstaða og fengist hefur frá miðju ári 2008, að því er fram kemur í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins.. Þeir örfáu stjórnendur sem telja aðstæður góðar starfa í sjávarútvegi og í iðnaði en í öðrum greinum telur enginn að aðstæður séu góðar.

Niðurstöðurnar eru svipaðar og í fyrri könnunum þegar stjórnendur fyrirtækja eru beðnir um að spá fyrir um aðstæður eftir 6 mánuði. Tæplega 25% sjá fram á betri tíma eftir 6 mánuði, 30% að aðstæður verði verri en 45% telja þær verði óbreyttar. Mikill munur er á svörum stjórnenda á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu þar sem einungis 12,5% stjórnenda á landsbyggðinni telja að ástandið muni batna samanborið við 28% á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnendur í fjármálastarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu eru bjartsýnastir á að ástandið muni batna á næstu sex mánuðum.

Þá telja nær allir aðspurðra sig hafa nægt starfsfólk og einungis 5,5% búa við skort á starfsfólki. Skortur á starfsfólki virðist mestur í fjármála- og tryggingastarfsemi. Um 14% stjórnenda hyggjast fjölga starfsmönnum á næstu sex mánuðum, 26% hyggjast fækka en 60% halda óbreyttum fjölda. Þetta er heldur lakari niðurstaða en í síðustu könnunum. Mesta fjölgunin er áformuð í fjármála- og tryggingastarfsemi en mesta fækkunin í iðnaði og framleiðslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×