Viðskipti innlent

Moody´s: Icesavedeilan ógnar efnahagsbata Íslands

„Gífurlega skuldabyrði ríkissjóðs, sem er arfur frá hruni bankakerfisins 2008, reynir verulega á ríkisstjórnina," segir Kenneth Orchard yfirmaður þjóðaráhættumats hjá Moodys í skýrslunni.
„Gífurlega skuldabyrði ríkissjóðs, sem er arfur frá hruni bankakerfisins 2008, reynir verulega á ríkisstjórnina," segir Kenneth Orchard yfirmaður þjóðaráhættumats hjá Moodys í skýrslunni.
Í árlegri skýrslu sinni um Ísland segir matsfyrirtækið Moody´s að efnahagslegri endurreisn Íslands sé ógnað af því að ekki hafi tekist að leiða Icesavedeiluna til lykta. Að mistekist hafi að ná samkomulagi í deilunni hindri aðgang landsins að erlendu fjármagni.

Seðlabankinn hefur birt skýrsluna á vefsíðu sinni. Þar segir að nokkur stöðugleiki sé kominn á efnahag landsins eftir hrunið haustið 2008. Hinsvegar muni þröngur fjárhagur og lítil fjárfesting valda því að kreppan haldi áfram töluvert fram á þetta ár.

Moody´s metur fjárhagsstyrk íslenskra stjórnvalda sem lítinn. Hlutfall vaxtagreiðslna af skuldum af heildartekjum ríkissjóðs sé það versta meðal þjóða sem einn hafa lánshæfiseinkunn í fjárfestingarflokki.

„Gífurlega skuldabyrði ríkissjóðs, sem er arfur frá hruni bankakerfisins 2008, reynir verulega á ríkisstjórnina," segir Kenneth Orchard yfirmaður þjóðaráhættumats hjá Moodys í skýrslunni. „Hinsvegar mun verulegur niðurskurður á útgjöldum að lokum skila afgangi á fjárlögum og koma þannig skuldabyrðinni í viðráðanlegt horf."

Fram kemur í skýrslunni að stjórnvöld reikna með að endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans muni fara langt með að greiða Icesave skuldina. Því sé skuldabyrðin nokkuð ýkt til skemmri tíma litið.

„Frestun á samkomulagi í Icesavedeilunni gæti flækt fyrir getu stjórnvalda til að endurfjármagna evruskuldabréf, sem eru á gjalddaga 2011 og 2012, á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og tefja fyrir afléttingu á gjaldeyrishöftunum," segir Orchard. „Hinsvegar hefur samþykkt AGS og Noðurlandanna á áframhaldandi lánveitingum gert það að verkum að Seðlabankinn ætti að hafa nægilegt svigrúm til að borga skuldabréfin á gjalddaga fari svo að endurfjármögnun standi ekki til boða."

Eins og áður hefur komið fram breytti Moody´s nýlega horfum sínum á lánshæfiseinkunn Íslands úr neikvæðum í stöðugar. Komið er inn á þetta í skýrslunni og sagt að ástæðan sé að önnur endurskoðun AGS sé í höfn og þar með aðgangur að lánum frá Norðurlöndunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×