Viðskipti innlent

Erlend kortavelta í maí langt yfir meðaltali ársins

Glögglega má sjá af tölum um úttektir erlendra debet- og kreditkorta hér á landi í maí að farfuglarnir eru komnir til landsins og ferðamannatímabilið er hafið. Þannig nam heildarúttekt erlendra korta hér á landi 3,1 milljörðum kr. í maí sem er langt yfir meðaltali síðustu mánaða, en fyrstu fjóra mánuði ársins nam erlend kortavelta hér á landi 2,4 milljarði kr. á mánuði.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar kemur ennfremur fram að athyglisvert verður að fylgjast með þessum tölum næstu mánuði en þær munu ásamt öðrum tölum skera úr um hversu mikil áhrif Eyjafjallajökull mun hafa á ferðamannatímabilið í ár.

Það er til að mynda strax hægt að sjá af kortaveltutölunum fyrir maí mánuð að færri ferðamenn hafa verið hér á landi í maí en fyrir ári síðan, en þá nam velta erlendra korta 3,5 milljörðum kr. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagsþróun er ljóst að veltan hefur dregist saman um 14% að raunvirði í nýliðnum maí frá sama tímabili fyrir ári síðan.

Athyglisvert verður að fylgjast með þróun í júní og júlí en miklar vonir eru bundnar við að markaðstátakið Inspired by Iceland muni auka ferðamannastraum til Íslands í sumar og koma í veg fyrir að lykkjufall verði vegna gossins í Eyjafjallajökli, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×