Viðskipti innlent

Exista verður lagt niður og forstjórar hætta

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Exista verður lagt niður í núverandi mynd og forstjórar þess Sigurður Valtýsson og Erlendur Hjaltason, munu að öllum líkindum hætta, samkvæmt heimildum fréttastofu, en til stendur að leggja nauðasamninga Exista, sem er móðurfélag Símans, VÍS og Lýsingar, fram í febrúar næstkomandi.

Það er skýlaus krafa innlendra kröfuhafa Exista, eins og t.d Arion Banka, að stjórnendur Exista fari frá en samkvæmt heimildum fréttastofu er yfirbygging félagsins allt of dýr í rekstri og rekstrarkostnaður fram úr hófi hár þrátt fyrir að aðeins örfáir starfsmenn starfi hjá félaginu í dag.

Ekki liggur fyrir í dag hvort 39,4 prósenta hlutur í Bakkavör sem Ágúst og Lýður Guðmundssynir seldu sjálfum sér eftir bankahrunið haustið 2008 renni aftur inn í Exista. Bræðurnir greiddu málamyndaverð fyrir hlutinn, aðeins 8,4 milljarða króna og hleypti salan vægast sagt illu blóði í innlenda kröfuhafa Exista eins og Arion Banka og skilanefnd Kaupþings.

Sérstakur fundur með kröfuhöfum Bakkavarar var í Lundúnum síðastliðinn föstudag þar sem þau áform voru kynnt að hlutur bræðranna í Bakkavör verði í eigu kröfuhafa Bakkavarar, sem eru að mestu hinir sömu og kröfuhafar Exista, en fjárhagsleg endurskipulagning beggja félaga er nú á lokastigi. Hún hefur verið unnin af THM Partners ráðgjafafyrirtækinu sem náði góðum árangri í endurskipulagningu Eimskips.

Ef þau áform sem kynnt voru á föstudag ganga eftir verða fyrirtæki eins og Síminn, VÍS og Lýsing í eigu kröfuhafanna. Erlendir kröfuhafar Exista eru 37 alþjóðlegir bankar, þ.ám. Royal Bank of Scotland, Deutsche Bank og Barclays. Þessir bankar eru ekki með veð í undirliggjandi eignum þar sem Exista var fjármagnað eins og banki, og um sambankalán sem njóta svipaðrar tryggingaverndar og víkjandi lán. Staða innlendra kröfuhafa Exista, eins og t.d Arion Banka, er betur tryggð og því eru hverfandi líkur á því að félög eins og Síminn lendi í erlendri eigu.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×