Viðskipti innlent

Icesave-arkitekt réð föðurbróður Hannesar Smárasonar sem Húsasmiðjuforstjóra

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Steinþór Baldursson, stjórnarformaður Húsasmiðjunnar og fyrrverandi yfirmaður alþjóðasviðs Landsbankans og einn af arkitektum Icesave, beitti sér fyrir ráðningu Sigurðar Arnars Sigurðssonar í stól forstjóra Húsasmiðjunnar. Sigurður Arnar er föðurbróðir og viðskiptafélagi Hannesar Smárasonar.

Vestia er dótturfélag Landsbankans, sem verður 100 prósent í eigu íslenska ríkisins, og inn í það félag renna þau fyrirtæki, önnur en fasteignafélög, sem Landsbankinn tekur yfir. Félagið hefur þegar eignast bæði Húsasmiðjuna og Vodafone, vegna erfiðleika í rekstri fyrirtækjanna.

 

Með þeim valdamestu

Vestia er stýrt af Steinþóri Baldurssyni, og er því óhætt að fullyrða að Steinþór sé með valdamestu mönnunum í íslensku viðskiptalífi í dag, enda útséð að stór hluti skuldsettra fyrirtækja sem Landsbankinn lánaði peninga lendi í faðmi Vestia. Bankinn var jafnframt með mun stærra útlánasafn á íslenskum markaði en bæði Glitnir og Kaupþing. Steinþór var yfirmaður á alþjóðasviði Landsbankans, var yfir samrunum og yfirtökum og stýrði útrás bankans, kaupum á fyrirtækjum eins og Teather & Greenwood, Kepler og Merrion. Færri vita hins vegar að Steinþór var einn af arkitektum Icesave-reikninganna.

 

Fyrirmyndin að Icesave var ING Direct, netreikningar hollenska bankans ING. Hugmyndin að safna innlánum hjá breskri og hollenskri alþýðu var ekki Steinþórs, en hún kom frá Heritable-bankanum, dótturfélagi Landsbankans í Lundúnum þegar Landsbankinn fékk ekki nein lán eftir lausafjárkreppuna 2006. Lánamarkaðir voru lokaðir á þessum tíma og því var stefnan tekin á söfnun innlána hjá einstaklingum í gegnum veraldarvefinn.

 

Hægri hönd Sigurjóns

Fyrrverandi samstarfsmennn Steinþórs segja að hann hafi verið eins konar hægri hönd Sigurjóns Þ. Árnasonar, bankastjóra, í málum tengdum yfirtökum á dótturfélögum og Icesave. Fleiri stjórnendur komu nálægt uppsetningu Icesave-reikninganna en þeir eiga það allir sameiginlegt að vera hættir hjá bankanum.

 

Steinþór sagði í samtali við fréttastofu að starf hans hafi snúið að vöruþróun og gerð verkferla Icesave og samhæfingu milli vinnunnar sem unnin var í erlendum útibúum og Landsbankans á Íslandi. Hann hafnar því að hafa borið ábyrgð eða komið að markaðssetningu Icesave, slíkt hafi verið á ábyrgð bankastjóranna, Sigurjóns og Halldórs, og stjórnenda erlendra útibúa.

 

Með örlög margra fyrirtækja í hendi sér

Sem forstjóri Vestia hefur Steinþór mikið að segja um örlög fyrirtækja sem Landsbankinn tekur yfir. Nú hefur Sigurður Arnar Sigurðsson, föðurbróðir og viðskiptafélagi Hannesar Smárasonar, verið ráðinn forstjóri Húsasmiðjunnar, en Sigurður átti með Hannesi matvælafyrirtækið Novel Group í Lundúnum sem nú er gjaldþrota. Steinþór Baldursson sagði í samtali við fréttastofu að Sigurður Arnar hafi verið ráðinn á grundvelli hæfni sinnar. Frændsemi hans hafi engin áhrif haft á ráðninguna.

„Við réðum sérfræðing á þeim starfssviðum sem Húsasmiðjan starfar á. Maðurinn er með gríðarlega mikla reynslu á sviði smásölu- og heildsölu," segir Steinþór um ráðningu Sigurðar Arnars.

 

Hæfni réð för, ekki frændsemi

Steinþór segir að þegar legið hafi fyrir að Vestia tæki yfir Húsasmiðjuna hafi Steinþór verið kynntur fyrir Sigurði og Vestia síðar gert ráðgjafarsamning við hann. Steinþór segir að ráðningin tengist ekki bakgrunni Sigurðar og að reynsla Sigurðar, sem er46 ára gamall viðskiptafræðingur, frá Byko og Elko komi sér vel, en hann kom að stofnun síðarnefnda félagsins.

 

Steinþór segist ekkert þekkja Hannes Smárson og hann hafi aldrei talað við hann. „Stjórn Húsasmiðjunnar telur að frændsemi eigi á engan hátt að hafa áhrif á mat á hæfi einstaklinga, frændsemi Sigurðar hafði engin áhrif á þessa ráðningu," segir Steinþór.

Þess má geta að fjöldi manna sóttist eftir starfi framkvæmdastjóra Vestia, en ákvörðun um ráðningu Steinþórs tók Ásmundur Stefánsson, bankastjóri.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×