Viðskipti innlent

Fáir lífeyrissjóðir jafn vel fjármagnaðir og þeir íslensku

Hafsteinn Hauksson skrifar
Efnahags- og framfarastofnunin segir íslenska lífeyrissjóðakerfið vera eitt af örfáum sem hafa náð sér að fullu eftir efnahagshrunið. Aðeins hollenskir lífeyrissjóðir séu betur fjármagnaðir.

Efnahags- og framfarastofnunin OECD birti í gær skýrslu um lífeyrissjóði aðildarríkja fyrir júlímánuð. Þar segir að áhrif heimskreppunnar á bæði einkarekna og opinbera lífeyrissjóði sé enn greinilegt og fjárfestingatap ársins 2008 hafi ekki skilað sér að fullu, þrátt fyrir hægfara bata á verðbréfamörkuðum.

Tapið nam alls um 3500 milljörðum bandaríkjadala, andvirði um 432 þúsund milljarða króna, en það hefur skilað sér aftur að tæpum helmingi eftir að markaðir tóku við sér.

Stofnunin nefnir þó örfáar undantekningar, þar sem staða lífeyrissjóðanna var betri í lok árs 2009 en hún var 2007. Ein þeirra er Ísland, sem OECD segir að hafi náð sér fullkomlega af tapi lífeyrissjóðanna á árinu 2008. Eignavirði lífeyrissjóða hér hafi verið um þremur og hálfu prósentu hærra undir lok árs 2009 en það var 2007.

Í skýrslunni eru eignir lífeyrissjóða aðildarríkjanna jafnframt bornar saman við landsframleiðslu til að meta fjármögnun þeirra. Þar er Ísland langt yfir meðaltali, en hér nema eignir þeirra um einni landsframleiðslu og fimmtungi betur. Vegið meðaltal er hins vegar um tveir þriðju landsframleiðslu. Aðeins Holland er með hærra hlutfall en Ísland, eða tæp 130 prósent landsframleiðslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×