Viðskipti innlent

Útlendingar gætu skapað sátt hér á landi

Tillögur um nokkrar rannsóknir liggja fyrir þinginu.
Tillögur um nokkrar rannsóknir liggja fyrir þinginu.

Viðskiptaráð telur ástæðu til að skoða hvort heppilegt geti verið að fá erlenda aðila til að annast rannsóknir í tengslum við hrunið. Fyrir Alþingi liggja tillögur um nokkrar slíkar og veitir Viðskiptaráð sömu umsögn um þrjár þeirra; rannsókn á Íbúðalánasjóði, rannsókn vegna Icesave og rannsókn á einkavæðingu bankanna.

Ráðið segir að vissulega verði sá lærdómur sem fæst út úr slíkum rannsóknum mikilvæg vitneskja þegar fram í sækir. Hins vegar sé þörf á að hugsa um það sem fram undan sé, en ekki rýna eingöngu í það sem gerst hafi, hvernig og af hverju. Stöðnun megi ekki ríkja á meðan niðurstaðna rannsókna sé beðið, líkt og gerðist þegar beðið var skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Að auki þurfi að gæta þess að rannsókn hafi ekki áhrif á framþróun mála meðan á henni stendur.

Verði ákveðið að efna til rannsókna segir Viðskiptaráð nauðsynlegt að um þær ríki sátt. Þeim sé ætlað að eyða tortryggni og því sé mikilvægt að rannsakendum sé treyst. Von sé til að traust og sátt fáist ef óháðir erlendir aðilar verði fengnir til verksins. „Hægt væri að gera rannsóknir á rannsóknir ofan um ókomna tíð um öll þau atriði sem tortryggni ríkir um og draga þarf fram í dagsljósið, en það er til einskis ef niðurstöðu slíkra rannsóknar er ekki treyst,“ segir Viðskiptaráð.- bþs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×