Lífið

Sýna í öllum veðrum og vindum

Anna Bergljót Thorarensen, meðlimur í leikhópnum Lottu, segir afskaplega skemmtilegt að leika fyrir börn. Fréttablaðið/valli
Anna Bergljót Thorarensen, meðlimur í leikhópnum Lottu, segir afskaplega skemmtilegt að leika fyrir börn. Fréttablaðið/valli
Leikhópurinn Lotta var stofnaður árið 2007 og setur upp leiksýningar ætluðum börnum. Sýningarnar fara fram utandyra yfir sumartímann þar sem hópurinn notar umhverfið og náttúruna í sýningar sínar.

„Við höfðum öll verið meðlimir í áhugaleikhúsum sem voru starfandi á veturna en vorum svo aktív að við gátum ekki hugsað okkur að leika ekki neitt á sumrin og ákváðum að taka málin í okkar hendur og þannig varð leikhópurinn Lotta til," útskýrir Anna Bergljót Thorarensen, meðlimur leikhópsins Lottu.

Leikhópurinn mun ferðast um allt land í sumar og setja upp leiksýningar en flestar munu þó fara fram í lítilli laut í Elliðaárdalnum þar sem hópurinn hefur sýnt undanfarin þrjú ár. Anna Bergljót segir leikhópinn ekki láta íslenska veðráttu hafa áhrif á sýningar og hafa þau aðeins þrisvar þurft að flýja inn í hús vegna veðurs. „Við sýnum úti í öllum veðrum en höfum þrisvar þurft að flýja inn og þá vegna áhorfenda. Við höfum lent í alls kyns ævintýrum á ferðum okkar og á Hellissandi fauk meðal annars leikmyndin um koll og svo höfum við lent í því að fuglar hafi verið að narta í leikmyndina okkar."

Aðspurð segir Anna Bergljót það afskaplega skemmtilegt og gefandi að leika fyrir börn og segir nálægðina við áhorfendur gera starfið enn skemmtilegra. „Það er æðislega gaman að vera svona nálægt áhorfendum og hitta þá bæði fyrir og eftir sýninguna og spjalla við börnin. Í fyrra þegar við settum upp Rauðhettu þá lögðu aðeins hugrökkustu börnin í það að knúsa úlfinn að sýningu lokinni en önnur létu sér nægja að faðma bara Rauðhettu," segir hún og hlær. Fyrsta sýning leikhópsins fer fram í Elliðaárdalnum hinn 29. maí. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.