Fastir pennar

Kögunarhóll: Seta ráðherra á Alþingi

Þorsteinn Pálsson skrifar
Flokksstjórn Samfylkingarinnar samþykkti á dögunum ályktun um stöðu ráðherra á Alþingi. Þar voru ráðherrum flokksins gefin fyrirmæli um að kalla inn varaþingmenn meðan þeir gegna ráðherraembætti. Í raun er verið að tala um viðbótarþingmenn.

Í ályktuninni var mælst til þess að þetta skref yrði stigið hið bráðasta. Mjög orkar tvímælis hvort þessi ályktun samrýmist stjórnarskránni. Allir ráðherrar Samfylkingarinnar utan einn sögðust þó ætla að fara eftir henni. Enginn þeirra hefur þó gert það. Það athafnaleysi hefur ekki verið útskýrt og enginn um það spurt.

Siv Friðleifsdóttir alþingismaður hefur á mörgum þingum flutt tillögur um breytingar á stjórnarskránni þar sem ráð er fyrir því gert að ráðherrar kalli inn viðbótarþingmenn. Vilji menn stíga þetta skref er þetta rétt málsmeðferð.

Tvenns konar rök eru færð fyrir þessari breyttu skipan: Í fyrsta lagi að styrkja Alþingi. Í öðru lagi að skerpa á aðskilnaði framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Áður en hrapað er að niðurstöðu er þó að ýmsu að hyggja.

Þingræðisreglan sem hér hefur gilt í rétt rúmlega hundrað ár felur í sér að Alþingi ræður ekki aðeins öllu um löggjafarmál heldur einnig hinu hverjir fara með æðstu stjórn framkvæmdarvaldsins. Styrkur Alþingis getur því ekki verið meiri. Við fullan aðskilnað veikist Alþingi þar af leiðandi með því að framkvæmdarvaldið sækir þá umboð sitt beint til fólksins.

Þegar talað er um veikleika Alþingis nú um stundir er fyrst og fremst verið að skírskota til þess að minni hluti þess á hverjum tíma hefur of veika stöðu gagnvart stjórnarmeirihlutanum. Það eru þau innbyrðis valdahlutföll sem þarf að breyta ætli menn að efla aðhaldshlutverk Alþingis.

Tillöguflutning Sivjar Friðleifsdóttur og Samfylkingarinnar þarf að skoða í þessu ljósi.



Styrkir stjórnarmeirihlutann

Þegar betur er að gáð kemur í ljós að tillögurnar stefna í þveröfuga átt við markmiðið. Í reynd þýðir þetta það eitt að stjórnarflokkar fá tólf þingmenn til viðbótar til þátttöku í umræðum og nefndarstörfum. Stjórnarmeirihlutinn fær þannig sterkari stöðu á þinginu og hlutfallslegur styrkur stjórnarandstöðunnar í málflutningi veikist að sama skapi.

Þingræðisreglan sem felur það í sér að meirihluti Alþingis ræður hverjir fara með framkvæmdavaldið stendur óbreytt. Ráðherrarnir sitja áfram á þingi og hafa þar málfrelsi. Þeir verða eftir sem áður pólitískir leiðtogar bæði á Alþingi og í ríkisstjórn enda er það eðli þingræðisreglunnar. Það er því beinlínis rangt að í þessu felist einhvers konar aðskilnaður þessara valdþátta og enn síður að hann sé skerptur með þessu móti.

Ráðherrarnir sleppa hins vegar við að mæta í atkvæðagreiðslur. Þeir sem til þekkja vita að verulegt hagræði getur falist í því fyrir þá. Þessi regla er sérstaklega hentug fyrir litla ríkisstjórnarflokka sem tilnefna fjölda ráðherra langt umfram það sem þingstyrkur þeirra segir til um og geta því ekki mannað þingnefndir.

Höfuðgalli við þessa tillögu er sem sagt sá að hlutfallslegt vægi stjórnarandstöðunnar í umræðum minnkar í sama mæli sem ríkisstjórnarliðið styrkist. Með öðrum orðum: Það sem hefst upp úr krafsinu er veikari staða minnihlutans á Alþingi til að gegna aðhaldshlutverki gagnvart stjórnarmeirihlutanum. Þingræðisreglan stendur óhögguð eftir sem áður.



Tveir kostir

Stundum er til þess vitnað að þessi regla er í norsku stjórnarskránni. Þegar konungur var einráður um skipan ráðherra þar í landi máttu þeir ekki sitja á þingi. Við innleiðingu þingræðisreglunnar fengu ráðherrar valdir af þinginu að halda þessari stöðu og aukheldur rétt til að kalla á viðbótarþingmenn. Það var ekki gert til að efla aðhald stjórnarandstöðunnar. Þvert á móti.

Þetta ákvæði í norsku stjórnarskránni er því merki um leifar frá stjórnskipulagi sem horfið var frá fyrir meir en öld. Satt best að segja er fremur þörf á að eyða ruglingi milli ólíkra stjórnkerfa en auka á hann.

Margar leiðir eru til að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar á Alþingi innan þingræðisreglunnar. Það má gera með því að sameina embætti forseta Íslands og forseta Alþingis. Löggjafarsamkoman fengi þá stjórnanda sem kjörinn væri sjálfstætt og væri óháður stjórnarmeirihlutanum. Hann ætti síðan að undirrita lög án aðkomu ráðherra.

Þá má færa tilteknum minnihluta þingmanna vald til að skjóta frumvörpum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Enn fremur má gera nefndir þingsins virkari í aðhaldshlutverkinu.

Raunverulegur aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdarvalds er alveg gilt umræðuefni en er allt annar handleggur.

Niðurstaðan er þessi: Engin þörf er á að styrkja stöðu stjórnarmeirihlutans eins og tillögur Samfylkingarinnar og Sivjar Friðleifsdóttur leiða til. Valið er um að bæta stöðu minnihlutans eða afnema þingræðisregluna.








×