Erlent

Nýra frá syni bjargar höfundi

Rithöfundurinn góðkunni var heiðraður af samtökum fatlaðra í Bretlandi í haust. Hún hefur verið lögblind í fimm ár og er bundin við hjólastól. Mynd/Ability Media
Rithöfundurinn góðkunni var heiðraður af samtökum fatlaðra í Bretlandi í haust. Hún hefur verið lögblind í fimm ár og er bundin við hjólastól. Mynd/Ability Media

Lífi breska rithöfundarins Sue Townsend var bjargað fyrr á þessu ári þegar í hana var grætt nýra úr elsta syni hennar. Townsend greindi frá aðgerðinni nú skömmu fyrir áramótin til að styðja starfsemi bresku nýrnasamtakanna og vekja athygli á sárum skorti á líffærum til ígræðslu.

Townsend bendir á að í Bretlandi einu bíði nú um tíu þúsund manns eftir nýrnaígræðslu, en þar af deyi þrír á degi hverjum. Af þeim 1.500 sem fengu grætt í sig nýra þar í landi í fyrra fékk þriðjungurinn líffærið frá ættingja.

Sue Townsend varð heimsfræg snemma á níunda áratug síðustu aldar fyrir Dagbókina hans Dadda, (The Secret Diary of Adrian Mole), en af henni spannst átta bóka röð um Dadda þar sem honum var fylgt fram á fullorðinsár. Frú Townsend er nú 63 ára og gantast með að hún hafi þrjú nýru. „Þótt sonur minn tali nú enn um nýrað sitt," segir hún í viðtali við dagblaðið Leicester Mercury í Bretlandi.

Aðgerðin gekk ekki áfallalaust hjá Townsend, því nýrað starfaði ekki í fyrstu, var tekið úr og sett í aftur. Hún var því átta tíma á skurðarborðinu. Sykursýki varð til þess að hennar eigin nýru hættu að virka.

„Fjölskylda mín kom saman, án samráðs við mig, og ákvað hver ætti að gefa nýra," sagði Townsend við dagblaðið Independent. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×