Lífið

Clash of the Titans er stórmynd af bestu gerð

Því er spáð að Sam Worthington verði næsta hasarmyndastjarna í líkingu við Bruce Willis ef Clash of the Titans gengur vel í bíó.
Því er spáð að Sam Worthington verði næsta hasarmyndastjarna í líkingu við Bruce Willis ef Clash of the Titans gengur vel í bíó.
Því er spáð af mörgum fjölmiðlum að stórmyndin Clash of the Titans verði einn af smellum ársins 2010 þótt hugtakið „smellur" hafi fengið nýja merkingu eftir Avatar-ævintýrið ógurlega. Myndin er stórmynd af bestu gerð enda má ekki minna vera þegar hinir breysku grísku guðir eru annars vegar. Reyndar er ein skemmtileg Avatar-tenging því aðalleikari myndarinnar, Sam Worthington, lék einmitt líka í þrívíddarveislu James Cameron. Clash of the Titans er endurgerð samnefndrar myndar frá árinu 1981 en tæknibrelluheimurinn hefur eilítið breyst síðan þá.

Myndin fjallar um Perseif sem er sonur guðanna. Því er hins vegar haldið leyndu fyrir honum þótt drengurinn komist fljótt að leyndarmálinu þegar fjölskyldu hans er rænt af undirheimaguðinum Hadesi. Perseus leggur því af stað ásamt vösku liði kappa til þess að skora Hades á hólm í mögnuðum bardaga þar sem fjölbreyttar tegundir skrímsla koma töluvert við sögu. Til gamans má geta þess að íslenska fyrirtækið Framestore vann að tæknibrellum fyrir myndina sem er að sjálfsögðu í þrívídd.

Hollywood-maskínan bindur miklar vonir við Sam Worthington og ef Clash of the Titans fer vel í áhorfendur gæti hann hugsanlega orðið næsta hasarmyndastjarna kvikmyndaborgarinnar. Worthington er vel studdur af gæðaleikurum á borð við Liam Neeson og Ralph Fiennes en leikstjóri myndarinnar er Louis Leterrier.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.