Skoðun

Húsnæðismál hreyfihamlaðs fólks

María Játvarðardóttir skrifar

Nýlega var í fjölmiðlum fjallað um vanda fjölskyldu á Akureyri sem á fatlaðan dreng. Vandi af þessu tagi er algengur á Íslandi. Húsnæði er oft mjög óaðgengilegt fyrir hreyfihamlað fólk. Mikið er um tröppur, bæði utanhúss og innan, mörg hús eru byggð á pöllum og í lægri blokkum eru ekki lyftur. Algengt er að tröppur séu inn í hús. Ef hreyfihamlað fólk vill búa í eldri hluta Reykjavíkurborgar er nánast ekkert húsnæði til sem er aðgengilegt nema nýju, háu blokkirnar á Skúlagötunni.

Engin aðstoð er frá hinu opinbera til að gera endurbætur á húsnæði nema hægt er að fá hærri lán hjá Íbúðalánasjóði á sömu kjörum og önnur lán.

Algengt er að ef fæðist hreyfihamlað barn í fjölskyldu eða einhver fjölskyldumeðlimur slasast eða veikist að gera þurfi endurbætur á húsnæði eða að fjölskyldan þarf að flytja ef ekki er unnt að breyta húsnæðinu.

Oft þarf að stækka baðherbergi, breikka dyr og opna rými. Ef fólk fatlast eða foreldrar eignast fatlað barn þýðir það oftast samdrátt í tekjum fjölskyldunnar því foreldrar geta ekki unnið jafn mikið og áður. Foreldrar fá umönnunargreiðslur en ef útgjöld eru mikil í tengslum við fötlun eða veikindi hrökkva þær ekki til. Það sem mér hefur samt alltaf fundist merkilegast í þessu máli er það að ég hef skilið stefnu stjórnvalda þannig að fatlað fólk og fötluð börn búi sem lengst heima hjá sér og hægt er.

Hins vegar hefur verið til sjóður sem heitir Framkvæmdasjóður fatlaðra en hann hefur eingöngu verið notaður til að byggja húsnæði á vegum hins opinbera, sambýli, skammtímavistanir og íbúðakjarna fyrir fatlað fólk.

Foreldrar og fullorðið fatlað fólk hefur ekki getað sótt um styrki í þennan sjóð til að bæta aðstæður heima fyrir þannig að fatlað fólk geti búið á eigin heimili með fjölskyldu sinni. Sú félagslega einangrun sem fylgir slæmu aðgengi á Íslandi er samt verst. Þegar ég spyr fjölskyldurnar sem koma til mín hverja þau geti heimsótt með hreyfihamlaða barnið vefst fólki tunga um tönn. Margir geta ekki farið í heimsóknir með fatlaða barnið því allir ættingjarnir búa í óaðgengilegu húsnæði. Þessu til viðbótar má nefna skort á aðgengi að opinberu húsnæði og verslunum. Það er von mín að við stofnun Velferðarráðuneytis verði fundin leið til að styrkja fjölskyldur hreyfihamlaðra til endurbóta og breytinga á húsnæði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.