Viðskipti innlent

Hafa keypt hlutafé fyrir rúman milljarð

Ekki er útilokað að fjárfestar hafi lagt allt upp í einn milljarð króna í þau sprotafyrirtæki sem útskrifast hafa frá Viðskiptasmiðjunni, segir forsvarsmaður smiðjunnar. Fréttablaðið/GVA
Ekki er útilokað að fjárfestar hafi lagt allt upp í einn milljarð króna í þau sprotafyrirtæki sem útskrifast hafa frá Viðskiptasmiðjunni, segir forsvarsmaður smiðjunnar. Fréttablaðið/GVA
Fjárfestar hafa keypt hlutafé í fyrirtækjum þeirra sem lært hafa að stýra sprotafyrirtækjum hjá Viðskiptasmiðju Klaks fyrir rúman milljarð króna á tveimur árum. Námið hófst haustið 2008, á sama tíma og efnahagslífið hér fór á hliðina.

„Einn milljarður króna er mjög há fjárhæð á ekki lengri tíma," segir dr. Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks - Nýsköpunar­miðstöðvar sem heldur utan um námið með Háskólanum í Reykjavík. Honum telst til að forsvarsmenn í kringum fimmtíu sprotafyrirtækja hafi setið á skólabekk í Viðskiptasmiðjunni. Þar á meðal eru forsvarsmenn sprota­fyrirtækisins Gavía (Hafmyndar) sem selt var á dögunum. Ekki er vitað hve hátt kaupverðið var og ekki útilokað að það hafi verið í kringum einn milljarður króna.

Á meðal forsvarsmanna annarra fyrirtækja eru stofnendur AGR, Trackwell, markaðsrannsókna­fyrirtækisins Clara, Remake Electric og Gogoyoko. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Frumtak og einstaka fjárfestar hafa keypt hlutafé fyrirtækjanna.

Í Viðskiptasmiðjunni er kennt hvernig á að stofna ný fyrirtæki eða koma fyrirtækjum í rekstri á rétta braut. Nemendur útskrifast með diplómu í frumkvöðlafræðum.

Útskrift annars árgangs Viðskiptasmiðjunnar verður haldin á morgun. Skráning stendur yfir fyrir þriðja árið, sem hefst í janúar. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×