Innlent

Engin þörf fyrir grímur í Reykjavík

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Öskufall hefur verið gríðarlegt í nálægð við gosstöðvarnar eins og á Núpakoti. Mynd/ Stefán.
Öskufall hefur verið gríðarlegt í nálægð við gosstöðvarnar eins og á Núpakoti. Mynd/ Stefán.
Engin þörf er fyrir grímunotkun á höfuðborgarsvæðinu eða öðrum svæðum þar sem ekki er talin hætta á öskufalli. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá almannavörnum.

Hins vegar mæla sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra með grímunotkun í mikilli námunda við gosstöðina þar sem öskufall er sýnilegt. Fyrri hluta dags á morgun verður líklega þörf fyrir grímur á Skógum, Sólheimasandi, í Mýrdalnum og í Vík í Mýrdal og á Mýrdalssandi. Þegar líður á daginn verður að líkindum þörf á grímum í Ásólfsskála, í Stóradal, á Seljalandi og hugsanlega í Vestamannaeyjum. Grímur eru afhentar á heilsugæslustöðinni á Hvolsvelli, í Vík í Mýrdal og í Vestmannaeyjum fyrir þá sem eru staðsettir á þessum svæðum.

Íbúafundur verður haldinn klukkan sex í kvöld í Höllinni í Vestmannaeyjum. Í dag sóttu 150 manns íbúafund í Laugalandi. Þar kom fram að íbúar í Holta- og Landssveit eru tilbúnir að leggja nágrönnum sínum lið.

Við flug TF-SIF yfir gosstöðvarnar í morgun sáust þrír gígar enn á ratsjá, en ekki var hægt að staðfesta gos í þeim öllum. Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar gaus stærsti gígurinn þó kröftuglega. Gjóskuveggir eru orðnir greinilegir norðan við gígana og götin í Gígjökli virðast hafa stækkað. Sunnan við eldstöðina sást lítill gufustrókur upp úr rásinni þar sem hlaupið niður að Þorvaldseyri fór fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×