Innlent

Röskun flugs Icelandair hefur áhrif á 20 þúsund farþega

Icelandair hefur lítið náð að fljúga síðan eldgosið skall á með öllu sínu öskugosi.
Icelandair hefur lítið náð að fljúga síðan eldgosið skall á með öllu sínu öskugosi.

Icelandair mun í dag fljúga fimm flug til fjögurra Evrópuborga og tvö flug til Bandaríkjanna. Frá því eldgosið í Eyjafjallajökli lokaði flugumferð til og frá fjölmörgum Evrópulöndum fimmtudaginn 15. apríl hafa orðið miklar truflanir á flugi félagsins, þrátt fyrir að Keflavíkurflugvöllur hafi verið opinn allan tímann.

Dagana 15.-20. apríl var samkvæmt áætlun Icelandair gert ráð fyrir að fljúga136 flug. Þess í stað hefur Icelandair flogið 76 flug.

Alls hefur þessi röskun snert 20 þúsund farþega, hér á landi og erlendis sem áttu bókað flug þessa daga. Rúmur helmingur þeirra hefur komist í flug, annað hvort í sérstök aukaflug eða flug samkvæmt áætlun. Fjölmargir hafa frestað ferðum sínum eða hætt við, og aðrir eru í biðstöðu, sumir enn fastir fjarri heimahögum.

Flug til og frá Bandaríkjunum hefur verið með eðlilegum hætti, en Evrópuflug hefur farið mjög úr skorðum. Miklu hefur bjargað að á föstudag 16. apríl var unnt að fljúga 3 aukaflug til Glasgow og sunnudaginn 18. apríl var flogið fimm sinnum til Þrándheims í Noregi. Ekkert hefur hinsvegar verið unnt að fljúga til helstu áfangastaða Icelandair, þ.e. Kaupmannahafnar og London.

Sem fyrr er sérstök athygli vakin á því að breytingar geta orðið með stuttum fyrirvara, og eru farþegar hvattir til þess að fylgjast vel með fréttum, komu- og brottfarartímum á textavarpi og vefmiðlum og upplýsingum á icelandair.is áður en farið er út á flugvöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×