Viðskipti innlent

Úttekt að undirlagi sjóðanna í gangi

Atli Gíslason
Atli Gíslason

Að öllu óbreyttu gætu tvær úttektir eða rannsóknir farið fram samhliða á starfsemi lífeyrissjóðanna í landinu. Í þingsályktun þingmannanefndarinnar, undir formennsku Atla Gíslasonar, er lagt til að starfsemi lífeyrissjóðanna verði rannsökuð.

Nú þegar er hafin vinna við að taka út starfsemi þeirra. Fjárfestingarstefna, ákvarðanataka og lagalegt umhverfi í aðdraganda bankahrunsins er til skoðunar.

Sú úttekt er gerð að frumkvæði Landssamtaka lífeyrissjóða sem fengu ríkissáttasemjara til að skipa nefnd til verksins. Valdist Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari, til formennsku.

Útlit er fyrir að endanleg ákvörðun um þingrannsókn verði ekki tekin fyrr en niðurstöður úttektarinnar liggja fyrir. Í samtali við Fréttablaðið sagði Atli Gíslason það vera sína skoðun að rétt væri að skoða þær og meta í framhaldinu hvort tilefni sé til rannsóknar á vegum þingsins.

Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að upphaflega hafi verið stefnt að verklokum úttektarnefndarinnar í desember en störf hennar kunni að dragast fram á nýtt ár. Kvaðst hann ekki gera athugasemdir við að þingið láti rannsaka lífeyrissjóðina en í kjölfar útgáfu skýrslu þingmannanefndarinnar hafi henni verið bent á að sjálfstæð og óháð úttekt að undirlagi sjóðanna sjálfra væri þegar hafin. - bþs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×