Viðskipti innlent

Enn fjölgar þeim sem verið hafa án vinnu í meir en ár

Áfram fjölgar í hópi þeirra einstaklinga sem hafa verið án atvinnu í meira en ár, eða um 35 einstaklinga milli mánaða, og voru þeir í lok nóvember 4.649 talsins. Þar með er þetta annar fjölmennasti mánuðurinn hvað þetta varðar en í apríl síðastliðnum voru um 4.662 einstaklingar án atvinnu í meir en ár sem er metfjöldi.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um nýjustu tölur Vinnumálastofnunnar um atvinnuleysi á landinu en það mældist 7,7% í nóvember.

Í Morgunkorninu segir að líkt og á undanförnum mánuðum er fjöldi einstaklinga verulega mikill sem hefur verið atvinnulaus í meira en 6 mánuði. Þannig voru alls 13.619 einstaklingar atvinnulausir í lok nóvember og hafði ríflega helmingur þeirra, eða um 53%, verið án atvinnu í 6 mánuði eða lengur. Þetta er nokkuð lægra hlutfall en verið hefur undanfarna mánuði, auk þess sem fjöldi þeirra hefur ekki verið minni síðan í júlí fyrir ári síðan.

Á sama tíma og þeim fer fjölgandi sem eru án atvinnu fækkar störfum sem í boði eru og hefur framboðið í raun sjaldan verið minna en nú. Þannig voru aðeins 168 laus störf hjá vinnumiðlunum í lok nóvember og fækkar um 147 störf frá fyrri mánuði. Á milli nóvember og desember fyrir ári fór atvinnuleysi úr 8,0% í 8,2% og er ekki við að búast að annað verði upp á teningnum í ár, þá hvort tveggja vegna árstíðaráhrifa og slakans í hagkerfinu. Vinnumálastofnun reiknar með að atvinnuleysi komi til með að verða á bilinu 7,8% til 8,1% í desember.

„Framvindan á vinnumarkaði er í takti við það við höfðum reiknað með í Þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka. Spá okkar gerir ráð fyrir 8,1% atvinnuleysi á þessu ári og taki svo að minnka á næstu árum en þó fremur hægt enda fylgir það hagsveiflunni gjarnan með nokkurri töf. Reiknum við því með að atvinnuleysi komi til með að verða mikið á sögulegan mælikvarða á komandi árum og að það verði 5% árið 2013," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×