Erlent

Leðurblökuplága herjar á húseigendur í Danmörku

Leðurblökuplága herjar nú á fjölda húseigenda í Danmörku. Sökum hennar hafa margar fjölskyldur neyðst til þess að flýja heimili sín.

Flestir danskir fjölmiðlar greina frá þessu vandamáli í dag. Í frétt um málið í Fyens Stiftstidende er greint frá parinu Nick Johansen og Charlotte Nilesen í Paarup á Fjóni.

Þegar Nick ætlaði að fara í jakkann sinn á leið út úr húsinu nýlega flugu fjórar leðurblökur út úr ermi jakkans og þar að auki var komið hreiður með nokkrum ungum í einu af skópari hans. Undir lokin hafði nýlenda á milli 100 og 200 leðurblakna tekið öll völd á heimili þeirra Nick og Charlotte sem nú eru flúin af því.

Bo Pedersen forstjóri félags sem sérhæfir sig í að losa heimili undan leðurblökum segir að það sem af er árinu hafi þeim borist 600 beiðnir um að fjarlægja leðurblökur. Venjulega séu þessar beiðnir 200 talsins á ári.

Ástæða þess að leðurblökurnar sækja svo mikið inn á heimili fólks er hversu mikið er búið að rífa af gömlum hlöðum og öðrum landbúnaðarbyggingum í landinu.

Ekki er hægt að kalla á meindýraeyði til að leysa vandamálið þar sem leðurblökur eru friðaðar í Danmörku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×