Erlent

Veiklað hjarta veikir heilann

Kínverskir öldungar í leikfimi. nordicphotos/AFP
Kínverskir öldungar í leikfimi. nordicphotos/AFP
Svo virðist sem beinni tengsl séu milli heilbrigðis hjarta og heila en vísindamenn hafa hingað til gert sér grein fyrir. Samkvæmt nýrri rannsókn eldist heilinn hraðar ef hjartað er veiklað, jafnvel þótt eiginlegir hjartasjúkdómar hafi ekki látið á sér kræla.

Vísindamenn við Boston-háskóla í Bandaríkjunum hafa birt skýrslu um þessa rannsókn. Hún var gerð á um 1500 manns á aldursbilinu 34 til 84 ára.

Vísindamennirnir mældu styrkleika hjarta og öldrunareinkenni heila. Þá kom í ljós að því kraftmeira sem hjartað er því minni öldrunareinkenni sjást á heilanum.

Þessi tengsl milli hjarta og heila mátti sjá bæði hjá fólki á fertugsaldri og öldungum komnum yfir áttrætt. Frá þessu er skýrt meðal annars á vefsíðum BBC og þýska tímaritsins Spiegel.

„Þátttakendurnir eru ekki sjúklingar,“ hefur BBC eftir Angelu Jefferson, sem stjórnaði rannsókninni. „Mjög fáir þeirra eru með hjartasjúkdóma.“- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×