Erlent

Herpesvírus notaður til lækninga á krabbameini

Enskir læknar hafa náð góðum árangri með því að nota herpesvírusinn við að lækna krabbamein í munni og hálsi.

Greint er frá þessu á BBC en þar segir að 17 enskir krabbameinssjúklingar hafi náð góðum bata eftir að hafa verið meðhöndlaðir með herpesvírusnum en læknarnir höfðu breytt erfðaeiginleikum vírusins áður en þeir notuðu hann til meðferðar við krabbameininu.

Kevin Harrington sem stjórnaði þessari tilraun við bresku Krabbameinsmiðstöðina segir að vírusinn hafi haft mjög jákvæð áhrif á bata sjúklinganna en vírusinn var notaður samhliða hefðbundinni lyfja- og geislameðferð. Af þessum 17 sjúklingum voru 85% laus við krabbamein sitt tveimur árum eftir meðferðina. Venjulega liggur þetta hlutfall á milli 35% og 55%.

Herpesvírusinn virkar þannig að hann ræðst á krabbameinsfrumur innanfrá og drepur þær en lætur heilbirgðar frumur í friði. Eina hliðarverkunin er jákvæð því vírusinn virðist efla ónæmisvarnir líkamans.

Ensku læknarnir vonast nú til að hægt sé að nota vírusinn við lækningar á fleiri tegundum krabbameins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×