Viðskipti innlent

Fyrirtækið Snjöll nýting innlends hráefnis í áliðnaði

Frá Grundartanga. Kísilryk (SiO2) er selt sem íblöndunarefni í sement. Framleiðsla er yfir 20 þúsund tonn á ári. Lengi var það urðað í malarnámum. fréttablaðið/vilhelm
Frá Grundartanga. Kísilryk (SiO2) er selt sem íblöndunarefni í sement. Framleiðsla er yfir 20 þúsund tonn á ári. Lengi var það urðað í malarnámum. fréttablaðið/vilhelm

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur sýnt fram á að það er bæði tæknilega mögulegt og fjárhagslega hagkvæmt að nýta kísilryk sem fellur til við framleiðslu járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga til að framleiða háhitaeinangrun. Notagildið er mikið og er einangrunin til dæmis nýtt í kerfóðringar og hafa íslensk álver sýnt vinnunni áhuga.

Stofnað hefur verið sprota­fyrirtækið Háhiti um framleiðslu þessarar háhitaeinangrunar og stefnt er að því að setja upp verksmiðju á Akranesi innan skamms. Slík verksmiðja gæti skapað tíu til tólf störf í upphafi.

Guðbjörg Óskarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð, segir að hugmyndin hafi vaknað haustið 2008, eða í miðju hruninu. Þá hafi verið í anda tímans að dusta rykið af gömlum hugmyndum. Ein slík var að nýta þetta innlenda hráefni sem fellur til í töluverðu magni við framleiðslu járnblendis hjá Elkem á Grundartanga.

Guðbjörg útskýrir að einangrunin sem um ræðir sé ekki aðeins mjög hitaþolin heldur sé hún sterkari en sú sem til þessa hefur verið nýtt í álverum hér. „Margvísleg notkun kemur til greina og sérstaklega í samhengi við nálægð framleiðslunnar við háhitanotkun bæði í iðnaði og orkuframleiðslu hérlendis. Tækifærin eru fjölmörg,“ segir Guðbjörg. - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×