Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag Íslands helst nokkuð stöðugt

Skuldatryggingaálag á evruskuldir Ríkissjóðs Íslands er enn nokkuð stöðugt líkt og upp á síðkastið. Í lok dags í gær stóð álagið í 306 punktum (3,06%) samkvæmt gögnum úr Bloomberg-gagnaveitunni sem er á svipuðu róli og það hefur verið síðustu mánuði.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að á síðustu dögum hefur meðaláhættuálag á meðal þróaðra (vestrænna) ríkja Evrópu verið að lækka nokkuð og stóð það í lok dags í gær í 172 punktum. Um miðja síðustu viku var álagið komið upp í 183 punkta og eins og kunnugt er mátti rekja þá hækkun m.a. til neikvæðra fregna af Írlandi sem hefur verið gagnrýnt mikið vegna aðkomu írska ríkisins að bankakerfinu.

Skuldatryggingaálag á írska ríkið stóð í gær í 448 punktum en í byrjun síðustu viku var það komið upp í 490 punkta. Þessi lækkun álagsins stingur þó í stúf við þróun lánshæfiseinkunna Írlands á sama tíma, en um miðja þessa viku lækkaði matsfyrirtækið Fitch lánshæfiseinkunn þess fyrir langtímaskuldabindingar úr AA- í A+ og eru einkunnir áfram á neikvæðum horfum.

Í tilkynningu matsfyrirtækisins er þessi lækkun sögð endurspegla óvenju mikinn kostnað, og meiri en vænst var, við að bjarga bankakerfi landsins.

Af þeim vestrænum ríkjum Evrópu sem seldar eru skuldatryggingar fyrir er skuldatryggingaálagið enn hæst á Grikkland en þó virðist það hafa mjakast nokkuð niður á við undanfarið. Þannig stóð álagið á Grikkland í gær í 750 punktum en það var yfir 800 punktum í síðustu viku.

Jafnframt er skuldatryggingaálagið á Ísland (306 punktar) enn hið fjórða hæsta, en í öðru og þriðja sæti í þessari upptalningu eru Írland (448 punktar) og svo Portúgal (409 punktar). Skuldatryggingarálagið á Spán (226 punktar) er í fimmta sæti á þessum lista og svo í sjötta sæti kemur álagið á Ítalíu (192 punktar).








Fleiri fréttir

Sjá meira


×