Viðskipti innlent

SP gerir tímabundið hlé á innheimtuaðgerðum

SP-Fjármögnun hefur ákveðið að gera tímabundið hlé á innheimtuaðgerðum sínum. Kemur þetta í kjölfar dæma Hæstaréttar þar sem gengistrygging á bílalánum er sögð ólögleg.

Á vefsíðu SP segir að frá falli bankanna hefur SP-Fjármögnun verið leiðandi í að bjóða viðskiptavinum sínum margvísleg úrræði til þess að lækka greiðslubyrði af gerðum samningum í erlendu gjaldmiðlum, nú síðast með lækkun höfuðstóls, sem að meðaltali nemur 28% til einstaklinga. Í kjölfar dóms Hæstaréttar mun SP-Fjármögnun taka samninga um erlenda bílasamninga til endurskoðunar í fullu samræmi við niðurstöðu dómsins.

Í dómi Hæstaréttar er ekki kveðið á um með hvaða hætti samningarnir skulu endurreiknaðir þannig að niðurstöðu réttarins sé fullnægt og er því úrvinnsla samkvæmt breyttri réttarstöðu enn að mörgu leyti óljós. SP-Fjármögnun mun svo fljótt sem auðið er aðlaga viðkomandi samninga að gildandi rétti.

Nánari upplýsingar um viðbrögð SP-Fjármögnunar við dómi Hæstaréttar er að vænta á heimasíðu félagsins á næstu dögum.

Á vefsíðunni eru einnig eftirtaldar spurningar og svör:

Með hvaða hætti verða gengistryggðu lánin endurreiknuð?

Dómur Hæstaréttar kveður ekki með skýrum hætti á um hvernig eigi að endurreikna lánin. Um leið og niðurstaða liggur fyrir um hvernig eigi að endurreikna lánin munum við upplýsa okkar viðskiptavini á vef félagsins.

Hvernig verður innheimtum á gengistryggðum lánum háttað á næstunni?

Hlé verður gert tímabundið á innheimtuaðgerðum félagsins vegna gengistryggðra lána.

Hafa lántakendur gengstryggðra lána sem þegar hafa nýtt þau úrræði sem í boði hafa verið hjá félaginu fyrirgert rétti sínum til frekari leiðréttinga?

Nei, lántakendur sem þegar hafa nýtt úrræði fyrirtækisins hafa ekki fyrirgert rétti sínum til frekari leiðréttinga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×