Viðskipti innlent

Gríðarleg lækkun á verði sérbýla

Í desember lækkaði verð á sérbýli um 5,8% frá fyrri mánuði en verð á íbúðum í fjölbýli um 1,3%. Frá því að íbúðaverð hér á landi náði hámarki í ársbyrjun 2008 hafa íbúðir í fjölbýli lækkað um 14% en verð á sérbýlum lækkað um 18,9%.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um nýjar tölur fr´q Fasteignaskrá Íslands. Í Morgunkorninu segir að lækkunin að raunvirði er augljóslega mun meiri, eða um 36,1% á fjölbýlum og 39,7% á sérbýlum.

Þessi þróun kemur ekki óvart miðað við það árferði sem hér ríkir enda má ætla að mun fleiri hafi kosið það að minnka við sig í kreppunni frekar en að stækka við sig sem gerir stærri eignir illseljanlegri. Við þetta bætist að erfiðara er að fjármagna kaup á stórum fasteignum um þessar mundir.

Eins og kunnugt er hefur sá samdráttur sem orðið hefur í efnahagslífinu hefur komið verulega hart niður á íðbúðamarkaðnum. Þessi þróun er í takt við það sem við mátti búast enda hefur reynsla annarra landa leitt í ljós að fjármálakreppur hafa oftast í för með sér skarpa og djúpa lækkun íbúðaverðs.

Reikna má með að íbúðaverð komi til með að gefa enn meira eftir og endurspegla væntingar um það hvort tveggja ástandið á framboðs- og eftirspurnarhlið markaðarins. Hin mikla uppsveifla undanfarinna ára á íbúðamarkaði hefur orðið til þess að nú þegar ládeyða hefur verið á þessum markaði situr eftir mikill fjöldi óseldra íbúða á framboðshlið markaðarins sem skapar frekari þrýsting til verðlækkunar. Við þetta ástand bætist mikið og vaxandi atvinnuleysi, svo og minnkandi ráðstöfunartekjur heimilanna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×