Viðskipti innlent

Ný gosdrykkjarverksmiðja formlega opnuð á morgun

Á morgun, þriðjudag, mun Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, opna formlega Gosverksmiðjuna Klett, nýja drykkjar- og átöppunarverksmiðju.

Í tilkynningu segir að við stofnun og uppsetningu verksmiðjunnar voru lögð til grundvallar gömul og góð íslensk gildi eins og nýtni og sjálfbærni í bland við kröfur samtímans um gagnsæi og upplýsingar til neytenda.

Stofnendur leituðu í smiðju íslenskra hönnuða, hugvitsmanna og ýmissa sérfræðinga sem allir lögðu sitt að mörkum til að taka þátt í mótun íslensks fyrirtækis.

Sögu Gosverksmiðjunnar Kletts má rekja til ársins 2009. Nokkrir einstaklingar voru að flytja heim til Íslands og leituðu leiða til að leggja sitt af mörkum við uppbyggingu atvinnulífsins. Þeir höfðu starfað erlendis um árabil, á ýmsum sviðum, meðal annars við gosframleiðslu. Hugmyndir um sjálfbærni og eflingu íslensks atvinnulífs var þeim ofarlega í huga.

Alls hafa um og yfir 100 manns komið að uppbyggingu verksmiðjunnar á einn eða annan máta. Í dag eru 25 aðilar sem eiga verksmiðjuna og eru meðal þeirra helstu starfsmenn, ásamt vinum og fjölskyldum. Í þeim hóp er enginn fagfjárfestir og enginn þekktur fjárfestir. Við uppbyggingu verksmiðjunnar var forðast að taka lán og horft í hverja krónu.

Varan er eingöngu ætluð fyrir íslenskan markað. Hönnun og framsetning vörunnar er íslensk að öllu leiti, unnin innanhúss og valdar voru óhefðbundnar og óvenjulegar leiðir í þeim efnum. Miðinn skartar mynd- um af Íslendingum og texta úr íslenskum dægurlögum og bókmenntum.

Tvær línur drykkjartegunda, Kletta GOS og Kletta VATN, með ýmsum bragðtegundum hafa þegar litið dagsins ljós. Á næstu mánuðum munu svo fljótlega bætast við fleiri vörutegundir. Við þróun drykkjanna er haft hugfast að minnka innihald sykurmagns og nota einungis náttúruleg bragðefni, að því er segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×