Viðskipti innlent

Atvinnuleysið mældist 9% í janúar

Skráð atvinnuleysi í janúar 2010 var 9% eða að meðaltali 14.705 manns og eykst atvinnuleysi um 6,7% að meðaltali frá desember eða um 929 manns. Á sama tíma á árinu 2009 var atvinnuleysi 6,6%, eða 10.456 manns að jafnaði.

Greint er frá þessu á vefsíðu Vinnumálastofnunnar. Þar segir að atvinnuleysið er 9,5% á höfuðborgarsvæðinu en 8,1% á landsbyggðinni. Mest er það á Suðurnesjum 14,5% en minnst á Vestfjörðum 3,4%. Atvinnuleysi eykst um 7,4% meðal karla en um 5,7% meðal kvenna. Atvinnuleysið er 9,9% meðal karla og 7,9% meðal kvenna.

Alls voru 16.382 atvinnulausir í lok janúar. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 13.424, af þeim voru 1.569 í einhvers konar úrræðum á vegum Vinnumálastofnunar, auk þess sem mikill fjöldi fer í ráðgjafarviðtöl og á kynningarfundi.

Yfirleitt versnar atvinnuástandið frá janúar til febrúar m.a. vegna árstíðasveiflu. Ekki hafa orðið miklar breytingar á nýskráningum fyrstu daga febrúar og áætlar Vinnumálastofnun að atvinnuleysið í febrúar breytist lítið og verði á bilinu 8,9%-9,3%. Í fyrra var atvinnuleysið 8,2% í febrúar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×