Viðskipti innlent

Nauðungarsölur fasteigna meir en tvöfaldast milli ára

Í lok nóvember 2010 höfðu 425 fasteignir verið seldar nauðungarsölu hjá Sýslumanninum í Reykjavík á árinu. Þetta er meir en tvöföldun á fjölda nauðungarsalna á fasteignum miðað við sama tímabil í fyrra en þá voru þær 207 talsins í lok nóvember.

Greint er frá málinu á vefsíðu sýslumannsins. Þar kemur fram að nauðungarsölum hefur fjölgað mikið á seinnihluta ársins. Þær voru fæstar eða 2 í maí en voru flestar eða 81 í október.

Á sama tíma og nauðungarsölum fjölgar hefur skráðum nauðungarsölumálum fækkað töluvert. Þau mál voru 1.742 talsins fram til nóvemberlok en voru 2.504 talsins á sama tíma í fyrra.

Nauðungarsölum bíla hefur hinsvegar fækkað á milli ára hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Þær voru orðnar 289 talsins í lok nóvember en voru 441 talsins á sama tímabili í fyrra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×