Viðskipti innlent

Veltan í Kauphöllinni 11,2 milljarðar á dag í fyrra

Heildarvelta 2009 hjá Kauphöllinni var 2.776 milljarðar kr. sem jafngildir 11,2 milljarða kr. veltu á dag. Rúm 98% veltunnar var með skuldabréf og er því meðal dagsveltan með skuldabréf tæpir 11 milljarðar kr.

Í tilkynningu segir að á skuldabréfamarkaði var MP Banki með mestu hlutdeildina eða 32%. Næstir koma Íslandsbanki með 28% og NBI með 14%.

Á hlutabréfamarkaði var það Arion banki sem var með mestu hlutdeildina eð 28% en í kjölfarið fylgdu MP Banki með 18% og Saga Capital með 16% hlutdeild.

Á skuldabréfamarkaðnum voru mest viðskipti með ríkisskuldabréf eða fyrir 1.647 milljarða kr. en þar á eftir fylgja íbúðabréfin með 928 milljarða veltu.

Í árslok höfðu 64 útgefendur alls 189 flokka skuldabréfa skráða í Kauphöllinni.

Skuldabréfamarkaðurinn á árinu 2009 skilaði góðri ávöxtun til fjárfesta og til að mynda hækkaði vísitala Kauphallarinnar fyrir 10 ára verðtryggð skuldabréf um 18,5% á árinu, vísitala fyrir 5 ára verðtryggð skuldabréf um 17,7% og vísitala 5 ára óverðtryggðra skuldabréfa hækkaði um 21,8%.

Af hlutabréfum voru mest viðskipti með bréf Marels eða fyrir 14 milljarða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×