Viðskipti innlent

Kortaþjónustan ætlar í mál vegna samkeppnisbrota

Kreditkort. Myndin er úr safni.
Kreditkort. Myndin er úr safni.

Kortaþjónustan undirbýr nú málssókn á hendur Valitor, Borgun og Fjölgreiðslumiðlun vegna samkeppnisbrota en Kortaþjónustan fékk á dögunum aðgang að gögnum sem Samkeppniseftirlitið viðaði að sér í rannsókn á málinu árið 2006.

Félögin greiddu sekt vegna brots á samkeppnislögum með því að hafa markvisst unnið gegn því Kortaþjónustan næði fótfestu á markaði. Alls þurftu félögin að greiða 735 milljónir króna í sekt árið 2008 til samkeppnisyfirvalda, sem er hæsta sekt fyrir viðurkennt samkeppnislagabrot hér á landi.

Samkeppniseftirlitið úrskurðaði fyrir skömmu að Kortaþjónustan hefði rétt á að fá afrit af gögnunum.

„Það er með ólíkindum að lesa í gegnum málsgögnin og sjá hvernig þessi félög höguðu sér þegar við komum á markaðinn. Brotaviljinn var einbeittur og öllum brögðum beitt til að verja einokunarstöðuna og bola okkur burt af markaðnum. Gögnin skýra ýmislegt og við sjáum nú að ýmsar hindranir sem við höfum þurft að glíma við frá stofnun félagsins voru til komnar vegna umfangsmikilla ólöglegra aðgerða Valitor, Borgunar og Fjölgreiðslumiðlunar," segir Jóhannes Ingi Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar.

Hann segir að Kortaþjónustan sé ekki sátt við að þá refsingu sem fyrirtækin hafa þegar sætt og þess vegna undirbúi Kortaþjónustan einkamál á hendur fyrirtækjanna.

„Það er ekki nóg að þau sættist við samkeppnisyfirvöld og skipti um nafn - okkar tjón er enn óbætt og því munum við leita réttar okkar," segir Jóhannes að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×