Innlent

Skyggnast milljarða ára aftur í tímann

Einar H. Guðmundsson prófessor í stjarneðlisfræði við HÍ.FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Einar H. Guðmundsson prófessor í stjarneðlisfræði við HÍ.FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Evrópska geimvísindastofnunin hefur birt fyrstu myndirnar frá Planck-gervihnettinum en þeim er ætlað að skera úr um heimsmyndina sjálfa; hvernig upphafið átti sér stað og þróunina fyrstu árþúsundin. Um er að ræða hráa mynd af öllu himinhvolfinu og er ætlunin að skyggnast fjórtán milljarða ára aftur í tímann.

Einar H. Guðmundsson, prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands, útskýrir að myndin eins og hún birtist heiminum núna gefi ekki miklar upplýsingar. Eftir á að hreinsa í burtu hluta hennar til að sjá það sem raunverulega þykir eftirsóknarvert.

„Þegar myndin hefur verið hreinsuð af svokallaðri forgrunnsgeislun er verið að horfa út að endamörkum hins sýnilega heims. Bakgrunnurinn er það svæði sem er lengst frá okkur, og þar af leiðandi yngsta svæðið. Það má segja að nær upphafinu getum við ekki komist með beinum mælingum. Það er í raun verið að mynda hvernig ástandið var í alheiminum um 400 þúsund árum eftir Miklahvell. Það er ekki til eldra ljós sem er reyndar núna orðið að örbylgjum," segir Einar.

Alheimurinn er talinn vera fjórtán milljarða ára gamall og með því að skoða geislunina sem geimsjónaukinn fangar á mynd fást upplýsingar um geiminn þegar hann var 400 þúsund ára gamall, þegar tóku að myndast vetrarbrautir, vetrarbrautahópar, reikistjörnur og sólir. Þegar myndirnar verða skoðaðar nákvæmlega fást upplýsingar um upphafið sjálft, þróunarsöguna og eðli efnisins á tíma upphafsins.

Einar segir að lítið sé hægt að gefa sér um hvort upplýsingarnar frá Planck muni bylta vísindalegri þekkingu í einhverjum skilningi. Hann býst við að frekari stoðum verði unnt að renna undir heimsmyndina og kenninguna um Miklahvell af mikilli nákvæmni. „Svo veit maður aldrei. Það gæti eitthvað birst sem fyrri rannsóknir sýndu ekki, þó að það sé ótrúlegt. Eitthvað sem myndi breyta myndinni. Það gæti orðið mjög áhugavert enda væri þá heimsmyndin að breytast."

Planck-verkefnið var upphaflega kallað COBRAS/SAMBA. Eftir að ákveðið var að ráðast í smíði þess árið 1996 var því gefið nýtt nafn og nefnt Planck til heiðurs Max Planck (1858-1947), nóbelsverðlaunahafa í eðlisfræði. Planck var skotið á loft árið 2009. Fimmtíu dögum síðar var gervitunglið komið á sporbaug sinn 1,5 milljóna kílómetra frá jörðu.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×