Viðskipti innlent

Utanríkisráðherra seldi stofnfjárhluti í SPRON fyrir tugi milljóna

Viðskiptablaðið greinir frá þvi í dag að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafi selt stofnfjárhluti í SPRON fyrir tugi milljóna kr. áður en bréf í sparisjóðnum fóru á markað árið 2007.

Samkvæmt frétt blaðsins átti Össur 10 milljónir stofnfjárhluta á þessum tíma og miðað við að verð á hlut var 4 til 7 kr. mun salan hafa gefið af sér 40 til 70 milljónir kr.

Einnig kemur fram að Árni Þór Sigurðsson þingmaður Vintri grænna hafi selt tæplega 1,3 milljónir stofnfjárhluti en hann hélt eftir litlum hlut.

Viðskiptablaðið fjallar ítarlega um söluna á stofnfjárhlutunum árið 2007 en hún hefur verið umdeild síðan enda töpuðu þeir sem keyptu hlutina miklum fjárhæðum. Viðskiptin fóru fram um sumarið eða tveimur mánuðum fyrir skráningu SPRON í kauphöllina.

Eins og áður hefur komið fram var töluvert um að fjölskyldumeðlimir stjórnenda og stjórnarmanna í SPRON hafi selt stofnfjárhluti sína. Nefnir Viðskiptablaðið Áslaugu Björgu Viggósdóttur, eiginkonu Guðmundar Haukssonar sparisjóðsstjóra sem seldi rúmlega 10 milljónir hluta að nafnvirði og hefur því væntanlega fengið svipaða upphæð í sinn hlut og Össur.

Af öðru tengdu fólki nefnir blaðið Halldór Kolbeinsson, eiginmann Hildar Petersen stjórnarformanns SPRON , sem seldi 1,5 milljónir hluta. Sjálf seldi Hildur rúmlega 5 milljónir hluta. Jón Gunnar Tómasson, fyrrverandi stjórnarformaður Spron, seldi um 400 þúsund hluti, og dóttir hans seldi fyrir litlu minna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×