Erlent

Vildu úthýsa ófrískri íslenskri konu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Danir ætluðu að úthýsa ófrískri íslenskri konu.
Danir ætluðu að úthýsa ófrískri íslenskri konu.
Dönsk yfirvöld hugðust vísa ófrískri íslenskri konu úr landi í fyrra vegna þess að hún þáði opinbera aðstoð. Danskir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að yfirvöld þar í landi hafa vísað 46 Norðurlandabúum úr landi á síðustu sex árum þrátt fyrir samnorrænar reglur um að Norðurlandabúar geti sest að á öðrum Norðurlöndum og þegið félagslega aðstoð í rikinu sem þeir setjast að í.

„Ég get skilið það ef þeim finnst ég hafa þegið opinbera aðstoð of lengi. En ég skil ekki hvers vegna þeir vilja senda ófríska konu, með fjögurra ára gamlan son og kærasta sem hefur atvinnu, úr landi," segir íslenska konan sem danska blaðið Politiken kallar einfaldlega Sigrúnu. Úr varð að Sigrún fékk að vera áfram í Danmörku gegn því skilyrði að hún afsalaði sér allri opinberri aðstoð.

Sigrún segir að allir vinir sínir hafi reynt að sannfæra sig um að málið gengi aldrei svo langt að henni yrði vísað úr landi. Það hafi þess vegna komið sér mjög á óvart þegar að hún fékk bréf frá Útlendingaeftirlitinu um að hún skyldi snauta burt. „Ég upplifði mig alveg bjargarlausa, sérstaklega af því að ég var ófrísk. Ég gerði mér ekki grein fyrir að málið væri svona alvarlegt," segir Sigrún í samtali við Politiken.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×