Viðskipti innlent

Tilraunir þrotabús Baugs gætu haft þveröfug áhrif

Tilraunir þrotabús Baugs til að lækka kröfu Straums í þrotabúið gætu að endingu haft þveröfug áhrif. Þrotabúið kallaði eftir nýju verðmati á íslensku hugbúnaðarfyrirtæki sem gerði risasamning við Microsoft sem reyndist svo vera lægra en upphaflegt mat. Baugur var aðaleigandi fyrirtækisins áður en Straumur tók það yfir.

Straumur átti veð í LS Retail og tók fyrirtækið yfir í febrúar á síðasta ári. Við það lækkaði krafa Straums í þrotabú Baugs. Rúmum sjö mánuðum eftir að Straumur tók fyrirtækið yfir seldi það hugbúnaðarlausnina LS Retail AX til Microsoft. Söluverðið hefur ekki verið gefið upp en samkvæmt heimildum fréttastofu nam það um 400 milljónum króna.

Eftir að fréttir bárust af sölunni kallaði þrotabúið eftir nýju verðmati á fyrirtækinu þar sem ekki var talið að yfirvofandi samningur við Microsoft hefði verið tekinn inn í fyrra verðmat. Þrotabúið hélt því fram að í ljósi samningsins væri virði fyrirtækisins mun meira en áætlað var þegar Straumur tók félagið yfir og vildi því freista þess að krafa Straums í búið yrði lækkuð.

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte gerði nýtt verðmat sem var tilbúið nú í desember. Samkvæmt því var fyrra verðmat of hátt og tók Straumur því félagið yfir á of háu verði. Krafa Straums á Baug sem nú nemur 22 milljörðum króna getur því hækkað verði nýtt verðmat lagt til grundvallar. Tilraunir þrotabúsins til að lækka kröfu bankans gætu því endað með því að hafa þveröfug áhrif.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×