Viðskipti innlent

Tugir Dana vilja fjárfesta í loðdýrarækt á Íslandi

Síðasta uppboð Kopenhagen Fur var haldið í síðasta mánuði og þar seldu íslenskir loðdýraræktendur um 30.000 skinn fyrir um 220 milljónir kr.
Síðasta uppboð Kopenhagen Fur var haldið í síðasta mánuði og þar seldu íslenskir loðdýraræktendur um 30.000 skinn fyrir um 220 milljónir kr.

Tugir Dana hafa nú áhuga á því að fjárfesta í loðdýrarækt á Íslandi. Danir hafa þegar keypt eitt minkabú sem ekki var í rekstri norður í Skagafirði og ætla að hefja framleiðslu þar í ár.

Verð á minkaskinnum á uppboðum í Kaupmannahöfn það sem af er ári hafa verið ævintýralega há eða vel yfir 300 danskrar kr. eða tæplega 7.000 kr. Ekki er reiknað með að þessi verð lækki í náinni framtíð. Það sem af er ári hafa íslenskir loðdýrabændur selt skinn fyrir hátt í 400 milljónir kr. á uppboðum hjá Kopenhagen Fur.

Björn Halldórsson formaður Samtaka íslenskra loðdýraræktenda segir að um 30 danskir aðilar hafi lýst yfir áhuga sínum á því að fjárfesta í loðdýrarækt á Íslandi. Er nú unnið að því að fá þennan hóp í viðskiptaferð til Íslands í sumar.

Síðasta uppboð Kopenhagen Fur var haldið í síðasta mánuði og þar seldu íslenskir loðdýraræktendur um 30.000 skinn fyrir um 220 milljónir kr. Á uppboðinu í febrúar seldust íslensk skinn fyrir um 150 milljónir kr. Loðdýrabændur áforma að senda um 50.000 skinn á uppboðið í júní og ef verðið helst hátt eins og allt bendir til munu bændurnir selja fyrir um 360 milljónir kr. á því uppboði.

Björn Halldórsson segir raunar að á uppboðinu í síðasta mánuði hafi nokkuð yfir meðalverðið fengist fyrir íslensku skinnin. „Það er nokkuð sem við erum ánægðir með," segir hann.

Eins og fram hefur komið í fréttum hér á visir.is eru það einkum Kínverjar sem kaupa skinnin á Kopenhagen Fur og hafa þeir verið í meirihluta kaupenda undanfarin uppboð.

Á heimsíðu Kopenhagen Fur segir að á upboðinu í apríl hafi Kínverjar verið meir en helmingur af þeim 580 kaupendum sem buðu í skinnin. Þar segir að reikna megi með að Kínverjar muni áfram greiða gott verð fyrir minkaskinn á þessum uppboðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×