Skoðun

Er beint lýðræði betra lýðræði?

Haukur Arnórsson skrifar
Sú ákvörðun forseta Íslands að skjóta lögum um ríkisábyrgð á Icesave til þjóðarinnar hefur vakið að nýju ákafar umræður um íslenska stjórnskipan og lýðræði. Því hefur verið haldið fram að aukin áhersla á þjóðaratkvæðagreiðslu efli lýðræðið. Það er umdeilt. Einkum það hvort beint lýðræði, eins og þjóðaratkvæðisgreiðsla, sem innleidd er á kostnað fulltrúalýðræðis, leiði til betra lýðræðis. Rétt er að þjóðaratkvæðagreiðsla hentar vel við ákveðnar aðstæður, ef unnt er að tryggja vandaða og upplýsta umræðu. Þegar forseti Íslands vísaði fjölmiðlalögunum til afgreiðslu þjóðarinnar árið 2004 vísaði hann til þess að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar, þ.e. gjá milli vilja þjóðarinnar og vilja fulltrúa hennar á þingi. Ef auka á áherslu á þjóðaratkvæðagreiðslur sem leið til að taka ákvarðanir í sameiginlegum málum þá er ástæða til að hafa í huga að það eru fleiri gjár í götu lýðræðisins, en sú gjá sem stundum má finna milli þings og þjóðar. Gjár í götu lýðræðis
sigurbjörg sigurgeirsdóttir
Í fyrsta lagi þá hefur myndast gjá milli eftirspurnar almennings eftir netþjónustu og framboðs ríkisins á rafrænni þjónustu. Þessi gjá hefur myndast þrátt fyrir að almenningur á Íslandi hafi um langt árabil verið betur nettengdur en almenningur í öðrum ríkjum hins vestræna heims. Þessi gjá hefur dregið úr vægi skoðana stjórnmálamanna og hlutlausra upplýsinga stjórnvalda í opinberri umræðu, en hefur aftur auðveldað einstaklingum úti í bæ og góðum bloggurum að hafa mikil skoðanamótandi áhrif. Vegna þessarar gjár er upplýsingagjöf og umræða um opinber mál ófullkomnari en ella væri. Gjá milli eftirspurnar og framboðs á netþjónustu er minni í nágrannaríkjunum þar sem færri meðal almennings eru nettengdir og framboð opinberra vefja er mikið betra en hér á landi (íslenska ríkið er lakast Vestur-Evrópuríkja samkvæmt nýjum upplýsingum frá EU).

Í öðru lagi er að finna gjá milli netheima og gömlu fjölmiðlanna. Netheimar og gömlu fjölmiðlarnir eru verulega aðskildir heimar. Það er ekki bara ríkið sem hefur látið undir höfuð leggjast að byggja upp netþjónustu. Hefðbundnir fjölmiðlar á Íslandi hafa verið lengi að taka nýjungar netsins í notkun. Þá hafa starfandi netmiðlar litla ritstýringu. Það veldur því að óhróður og árásir eru daglegt brauð á netinu. Þessu er hins vegar töluvert öðruvísi farið erlendis þar sem er að finna mörg dæmi þess, að vandaðir fjölmiðlar starfa á netinu, eins og við Íslendingar höfum séð á síðustu dögum. Þá er ljóst að í opinberri umræðu hafa þær hefðir myndast að hátt hlutfall lesendabréfa (oft um 20% í Bandaríkjunum) er hent vegna ónógra gæða. Góð ritstýring þýðir að þeir sem skrifa fyrir netmiðla erlendis eru væntanlega betur varðir en hér á landi. Netið og hin upplýsta umræðaMúgæsing getur átt frítt spil á netinu. Upplýsingar og sjónarmið stjórnvalda, stjórnmálamanna, fræðimanna, háskólaumhverfisins og vandaðra fréttamanna ná síður til almennings, þar sem opinberir vefir og vefir fjölmiðla hafa ekki þróast með eðlilegum hraða í stafræna átt.

Samræðan á netinu er einnig of frumstæð og stenst engar gæðakröfur. Það gerir það meðal annars að verkum að einstaklingar og kannski einkum fræðimenn, sem eru vandir að virðingu sinni og vilja ekki fá yfir sig persónulegar svívirðingar, taka ekki þátt í umræðunni á netinu. Þess í stað birta þeir efni sitt í ritstýrðum miðlum, svo sem í tímaritum, í blaðagreinum eða koma fram hjá góðum ljósvakamiðlum. Þessir ólíku heimar gera það að verkum að þeir sem nota gömlu miðlana, gætu haft lítil skoðanamyndandi áhrif á netinu. Ef það er tilfellið dregur sú staða verulega úr lýðræðislegu gildi umræðunnar á netinu.

Þannig er ekki tryggt að sú umræða sem fram fer á netinu styðjist við vandaðar upplýsingar og sannindi eins og þau gerast best hverju sinni. Því er eðlilegt og réttmætt að spyrja um upplýsta skoðanamyndun á netinu. Rafrænt lýðræðiFramtíðarsýn hinna alþjóðlegu hugmynda um rafrænt lýðræði stefnir ekki út fyrir kerfi fulltrúalýðræðisins. Rafrænt lýðræði hefur víðast erlendis einkum snúið að því að miðla upplýsingum til almennings og auka þátttöku hans og áhrif á ýmsum stigum fulltrúalýðræðisins. Aukin þátttaka almennings hefur vissulega áhrif á ákvarðanatöku, en rafræna lýðræðið beinist þó ekki að því að breyta formi ákvarðanatökunnar. Rafrænt lýðræði er þannig hugsað sem viðbót og stuðningur við fulltrúalýðræðið. Slíkur stuðningur er lítill á Íslandi þar sem stjórnvöld hafa ekki byggt upp öflugar upplýsingaveitur og verkfæri fyrir stjórnmálaþátttöku almennings á netinu, og því ekki lagt sitt af mörkum til að mæta stjórnmálaáhuga almennings á netinu. Það kemur sér sérstaklega illa núna þegar byggja þarf upp traust á stjórnvöldum að nýju. Beint lýðræðiHugmyndir íslenskra netverja og jafnvel forseta Íslands um beina lýðræðið boða lýðræðisbreytingar, sem ganga í aðra átt en rafræna lýðræðið í okkar heimshluta. Svo virðist sem hugmyndir netverja hér á landi beinist oft að ákvarðanatökunni sjálfri (takkalýðræði). Aftur á móti eru flestir fræðimenn sammála um að beint lýðræði sé of frumstætt stjórnarform fyrir heilar þjóðir og að hættan á harðræði meirihlutans sé of nálæg. Einfalt meirihlutalýðræði gefur ekki endilega besta svarið við ýmsum flóknum samfélagslegum spurningum. Bein ákvarðanataka almennings er því alltaf háð sérstökum aðstæðum og spyrja má hvort þær aðstæður séu til staðar. Hið norræna lýðræðiStjórnmál á hinum Norðurlöndunum hafa einkennst af samræðu- eða samráðsstjórnmálum, meðan stjórnmál á Íslandi einkennast af átakahefð. Fulltrúalýðræðið á Norðurlöndum er álitið eitt þróaðasta lýðræði í heimi. Ákvarðanataka fulltrúalýðræðisins gerir ráð fyrir upplýstum umræðum og víðtæku samráði. Ekki er tryggt í þjóðaratkvæðagreiðslu að ákvarðanir einstaklinga byggi á slíku.

Við hrun íslenska fjármálakerfisins hefur komið á daginn að þróun íslenska lýðræðisins er skemmra á veg komin en ætla mátti. Ef vilji stendur til þess að þróa og styrkja framkvæmd íslenska fulltrúalýðræðisins í átt til hins norræna og þar með leitast við að draga úr þeirri átakahefð sem hér hefur ríkt, er nauðsynlegt að styrkja rafrænt lýðræði. Þá þurfa ákvarðanir um þjóðaratkvæðagreiðslur að taka mið af því markmiði og það tryggt að vandaðar upplýsingar berist almenningi og að skoðanaskipti séu málefnaleg og boðleg að öðru leyti. Beint lýðræði þarf að styðja við þróun fulltrúalýðræðisins. Að öðrum kosti er hæpið að þjóðaratkvæðagreiðslur efli íslenska lýðræðið.

Höfundar eru stjórnsýslufræðingar.




Skoðun

Sjá meira


×