Innlent

LÍÚ: Ummæli Jóns öfugmæli

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, og Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri sambandsins. Mynd/GVA
Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, og Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri sambandsins. Mynd/GVA
Landssamband íslenskra útvegsmanna segja að það sé samfélag ábyrgð að berjast gegn fyrningarleið stjórnvöld. Ummæli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fyrr í dag eru því öfugmæli, að mati sambandsins. LÍÚ hafi ekki hótað neinum en það hafi hins vegar ríkisstjórnin gert.

Jón Bjarnason, landbúnaðar-og sjávarútvegsráðherra, segist enga trú hafa á því að útvegsmenn hlaupist undan samfélagslegri ábyrgð og sigli flotanum í land vegna áforma ríkisstjórnarinnar fyrningu kvótans. Útgerðarmenn berjast nú gegn áformum ríkisstjórnarinnar um að taka kvótann af þeim í áföngum með svokallaðri fyrningarleið. Á stjórnarfundi LÍÚ fyrir jól var samþykkt að ef allt um þryti yrði flotanum siglt í land og hann bundinn við bryggju.

„Samfélagsleg ábyrgð er það leiðarljós sem Landssamband íslenskra útvegsmanna fylgir í baráttu sinni gegn því að áform ríkisstjórnarinnar um að að fyrna afheimildir sjávarútvegsfyrirtækja nái fram að ganga. Orð Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem höfð voru eftir honum fyrr í dag í viðtali við Bylgjuna og síðar á visir.is, um hið gagnstæða eru því öfugmæli," segir í yfirlýsingu frá LÍÚ.

Sambandið segir Jón snúa hlutunum á haus þegar hann haldi því fram að útvegsmenn hafi uppi hótanir. Eina hótunin í þessu máli kemur frá stjórnvöldum. Hótun um að fyrna aflaheimildir og skerða þar með rekstrargrundvöll sjávarútvegsfyrirtækja ber að taka alvarlega af atvinnurekendum sem bera ábyrgð gagnvart eigendum, starfsmönnum og fjölskyldum þeirra, viðskiptavinum, sveitarfélögum og samfélaginu öllu."

Þá segir í yfirlýsingu LÍÚ að fulltrúar sambandsins hafi tekið sætti í sáttanefnd um endurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar í haust og lagt mikið upp úr því að sátt myndi nást.

„Fyrningarleiðin, sem leiðir til gjaldþrots fyrirtækjanna, getur aldrei orðið grundvöllur sátta. Það var því sáttarof af hálfu ráðherra er hann lagði fram frumvarp á Alþingi um ofveiði og fyrningu á einni tiltekinni fisktegund. Um hvað á „sáttastarfið" að snúast ef stjórnvöld sniðganga nefndina þegar kemur að helstu álitaefnum?"


Tengdar fréttir

LÍÚ samþykkti að sigla flotanum í land

Útvegsmenn hafa samþykkt að fiskiskipaflotanum verði siglt í land og hann bundinn við bryggju láti ríkisstjórnin ekki af áformum um fyrningu kvótans. Stjórnvöld hafa verið látin vita af þessum áformum.

Jón hræðist ekki hótanir LÍÚ

Landbúnaðar-og sjávarútvegsráðherra segist enga trú hafa á því að útvegsmenn hlaupist undan samfélagslegri ábyrgð og sigli flotanum í land vegna áforma ríkisstjórnarinnar fyrningu kvótans. Útvegsmenn eigi sæti í starfshópi um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunarmála og geti vel komið sínum málum á framfæri þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×