Innlent

Gnarr gróðursetur tré í Heiðmörk á fjölskylduhátíð

Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur.
Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur.

Fjölskylduhátíðin í Heiðmörk verður á Vígsluflöt í dag og nær þar með afmælisvika Heiðmerkur hápunkti. Jón Gnarr brogarstjóri mætir með fríðu föruneyti, ávarpar samkomuna og gróðursetur tré, eins og forveri hans Gunnar Thoroddsen gerði fyrir 60 árum. Borgarstjóri mun einnig taka þátt í að vígja lengstu þrautabraut landsins í skógi á Vígsluflötinni.

Rathlaupsfélagið Hekla stendur fyrir rathlaupi, sem er nýjung hér á landi, og trélistamenn skera út verk sín í þriggja metra háa trjádrumba.

Börnunum býðst að fara í margskonar skógarleiki að hætti Náttúruskólans og fylkingar sem deilt hafa í áratugi um alaskalúpínuna munu takast á í hatrömmu lúpínureiptogi. Fjöldasöngur og brasstríóið Mora mun líka leika lög á meðan á hátíðinni stendur.







Í kvöld verða síðan tónleikar í skóginum í Heiðmörk með Kríu Brekkan, Steinum og Einhverju Boybandi. Boðið verður upp á grilluð kerfils- og hvannarbrauð við varðeld.

Rúta leggur af stað frá Lækjartorgi kl 21:00 og keyrir til baka frá Heiðmörk kl 01:00.

Í tilkynningu frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur segir að fólki sé velkomið að taka með sér áslátturshljóðfæri og taka þátt í seinni hluta tónleikanna sem gæti orðið eins konar tónlistarsamsuða. „Kría Brekkan verður með nýtt og hressandi efni, hljómsveitin Steinar verður með þjóðlagakántríbræðing og svo spilar hljómsveitin Eitthvað Boyband spilar íslenska reggí og danstónlist sem tónlistaráhugamenn ættu ekki alls ekki að láta fram hjá sér fara."

Það er bæði ókeypis í rútuna og á tónleikana í tilefni 60 ára afmælis Heiðmerkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×