Viðskipti innlent

KPMG og Innovit í samstarf um Gulleggið 2010

KPMG og Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur, hafa undirritað samstarfssamning um stuðning KPMG við Gulleggið 2010, frumkvöðlakeppni Innovit.

Í tilkynningu segir að KPMG verður því einn af stuðningsaðilum keppninnar og mun jafnframt styðja við þátttakendur í keppninni með fjölbreyttri ráðgjöf og þjálfun.

Gulleggið 2010, frumkvöðlakeppni Innovit er haldin að fyrirmynd sambærilegrar keppni við MIT háskóla í Bandaríkjunum hefur undanfarin tvö ár verið stökkpallur fyrir ný íslensk sprotafyrirtæki úr öllum greinum atvinnulífsins. Þannig hefur á þessum stutta tíma skapast yfir 106 ný störf hjá þeim fyrirtækjum sem hafa tekið þátt eða verið stofnuð í kjölfar keppninnar.

„Við erum afar ánægð með stuðning KPMG og bindum miklar vonir við að samstarfið muni verða liður í því að efla frumkvöðlakeppnina enn frekar og styðja þannig við uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Þá er það okkur sérstakt ánægjuefni að KPMG muni í samstarfi við okkur aðstoða keppendur og miðla af reynslu starfsmanna sinna með þjálfun og ráðgjöf til þeirra nýju sprotafyrirtækja sem munu taka þátt," segir Andri Heiðar Kristinsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Innovit.

„Okkur hér hjá KPMG finnst áhugavert og spennandi að taka þátt í þessu verkefni Innovit, ekki síst nú á tímum er mikilvægi nýsköpunar hefur trúlega sjaldan verið meiri fyrir framtíð íslensks atvinnulífs, " segir Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri KPMG.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×