Viðskipti innlent

Robert Wade: Icesave klassískt dæmi fyrir sáttasemjara

Íslandsvinurinn og prófessorinn Robert H. Wade segir að Icesave deilan sé klassískt dæmi um aðkomu þriðja aðila, eða sáttasemjara, til að finna ásættanlega lausn í málinu.

Þetta kemur fram í lesendabréfi sem Wade skrifar og birt er í Financial Times í dag en Wade er hagfræðiprófessor við London School of Economics. Hann segir að fyrsta skrefið sé að viðurkenna að sökin liggi jafnmikið hjá Bretum og Hollendingum sem Íslendingum í málinu.

Í bréfi sínu tekur Wade sem dæmi að hollenski seðlabankinn hafi leyft opnun Icesave reikninga þar í landi seinnipart apríl árið 2008. Þar með hafi bankinn horft framhjá skýrslu Bankaeftirlitsnefndarinnar í Basel (Committee on Bank Supervision) frá því í febrúar sama ár þar sem nýjar reglur voru settar fram um ábyrgðina á rekstri útibúa í gistilöndum. Áður voru þessi útibú á ábyrgð heimalands síns en með hinum nýju reglum færðist ábyrgin yfir á eftirlit og regluverk þess lands sem útibúin starfa í.

„Seðlabanki Hollands hefði verið mun varkárari ef hann hefði rannsakaða málið eins og þessarar nýju reglur sögðu að gera ætti," segir Wade.

Hvað Íslendinga varðar voru það klár mistök af hálfu íslenskra stjórnvalda að lofa breska fjármálaeftirlitinu (FSA) því á miðju ári 2008 að þau myndu tryggja nægt fjármagn til tryggingarsjóðs innistæðueigenda. Þetta loforð kom í kjölfar þess að FSA ætlaði að loka Icesave reikningunum í Bretlandi. Að mati Wade voru það svo mistök af hálfu FSA að taka mark á þessu loforði íslenskra stjórnvalda.

Wade segir að Icesave sé klassískt dæmi um aðkomu þriðja aðila til sáttagerðar. Hann segir ennfremur að sáttasemjarinn ætti að vera stjórnmálamaður eða fyrrum stjórnmálamaður frá Evrópuríki. Hann á að vera virtur fyrir dómgreind og heiðarleika og hann á að geta sótt sér stuðning innan ESB.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×