Innlent

Notuðu garðklippur á fingur

Garðklippur voru notaðar til að reyna að kúga fé út úr manni.
Garðklippur voru notaðar til að reyna að kúga fé út úr manni.

Þrír menn eru nú fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sakaðir um að hafa svipt mann frelsi sínu og klippt hann í fingurinn með garðklippum í því skyni að kúga af honum hálfa milljón króna.

Mönnunum er gefið að sök að hafa í mars á síðasta ári leitt manninn nauðugan að bifreið og ýtt honum í farangursrými hennar. Tveir mannanna hafi slegið fórnarlambið ítrekað í andlit með krepptum hnefa. Í Öskjuhlíð veittust þremenningarnir að honum í sameiningu með höggum og spörkum í andlit og líkama, auk þess sem einn þeirra sló manninn með steini í hægri öxl, sparkaði í hnakka hans og annar árásarmannanna klippti með garðklippum í litla fingur vinstri handar hans.

Í kjölfarið hótuðu þeir manninum frekari líkamsmeiðingum ef hann útvegaði ekki hálfa milljón króna innan tiltekins frests. Enn fremur létu þeir hann hringja í systur sína og hótuðu henni því að beita fórnarlambið frekara ofbeldi ef hún ekki greiddi þeim hálfa milljón króna. Því næst færðu þeir manninn í farangursrými bifreiðarinnar og óku með hann að slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss í Fossvogi þar sem þeir skildu hann eftir. Hann reyndist vera með umtalsverða áverka. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×